Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

upplýsingalög.

780. mál
[14:30]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögu frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd við frumvarp til laga um breytingu á upplýsingalögum, með síðari breytingum (útvíkkun gildissviðs o.fl.). þar sem við bætum inn í frumvarpstextann orðunum eins og þau eru í upplýsingalögunum núna, þ.e. þessum orðum: svo fljótt sem verða má. Þannig er það í lögunum eins og þau eru í dag.

Í frumvarpinu var verið að orða þessa 15. gr. laganna upp á nýtt og bæta inn 150 daga takmarki, þ.e. að úrskurðarnefnd um upplýsingamál mætti að jafnaði ekki vera lengur að vinna sín mál en 150 daga. Í dag fara ýmis mál umfram það og sum fara upp í 180, jafnvel alveg upp í 220 daga. Það er verið að setja efri mörk, takmarka það við 150 daga sem lengst má vinna, en okkur var bent á að orðin: svo fljótt sem verða má, hefðu dottið út ef við hefðum gert þetta svona. Við erum því að bæta þeim inn hér enda er meginreglan í stjórnsýslulögum þannig.

Til þess að hafa þetta líka skýrt í upplýsingalögunum, þannig að þegar borgararnir eða fjölmiðlar eru að lesa í gegnum upplýsingalögin sé alveg kýrskýrt að úrskurðarnefnd um upplýsingamál á að vinna kærur sem til hennar berast svo fljótt sem verða má, þá mun á endanum efnismálsgrein 15. gr. orðast svo, með leyfi forseta:

„Úrskurðarnefnd um upplýsingamál skal birta úrskurð þeim sem fór fram á aðgang að gögnum og þeim sem kæra beindist að svo fljótt sem verða má en að jafnaði innan 150 daga frá móttöku hennar.“

Eins og ég sagði áðan er þessi breytingartillaga frá öllum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem eru sammála.