149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

umferðarlög.

219. mál
[15:27]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Aðeins meiri umfjöllun um hjálmaskylduna þar sem við skildum við hana í andsvörum áðan við hv. þm. Vilhjálm Árnason. Það er ýmislegt annað í þessari ákvörðun sem ég tel ábótavant. Það er aðallega greining á því hver staðan sé eins og er. Samkvæmt þeim upplýsingum sem alla vega ég fæ hjá Landssambandi hjólreiðamanna er hjálmanotkun almennt séð mjög góð á Íslandi. Andstætt kannski öðrum löndum þar sem hjálmaskylda hefur verið tekin upp og hjálmanotkun aukist mjög mikið í kjölfar hjálmaskyldu er það ekkert endilega tilfellið í núverandi aðstæðum á Íslandi þar sem hjálmanotkun er tiltölulega útbreidd.

En eins og ég nefndi áðan er staðan tiltölulega óljós. Þau gögn sem við fengum í hendurnar eru ekki það greinargóð að við gætum metið áhrifin af því að taka upp hjálmaskyldu. Það er engin spá sem greinir núverandi stöðu og segir að hjálmaskylda auki hjálmanotkun upp í tiltekið viðmið. Það er ekkert sérstakt markmið með þessari hjálmaskyldu. Þetta virðist bara vera pólitísk ákvörðun sem er ekki byggð á gögnum. Mér finnst það ábótavant því að það eru líka gögn til um það, t.d. frá Nýja-Sjálandi, að þegar hjálmaskylda er tekin upp minnkar hjólreiðanotkun þó nokkuð mikið, sem vegur upp á móti hinum markmiðum þess að setja þetta ákvæði. Þannig að þarna togast tveir pólar á.

Nefndin leggur vissulega upp með að það eigi að safna gögnum um niðurstöðu eða hvaða áhrif þetta hefur, hver sé staðan á Íslandi, hver áhrifin af þessu muni verða. En það væri gagnasöfnun eftir á og þá væri verið að lagfæra ákvörðun eftir á. Ef ætti að laga þetta fyrir gildistöku laganna, sem er um áramótin, væri það frumvarp sem kæmi tiltölulega seint fram, væntanlega á næsta haustþingi, og fengi ákveðna flýtimeðferð.

Ég sé ekki að það sé hægt að safna fullnægjandi gögnum á þeim tíma eins og hefur verið krafa um, alla vega úr hinni áttinni, að hjálmaskyldan sé ekki nauðsynleg.

Bara til að leggja áherslu á það: Hjálmanotkun við aðstæður eins og hjólreiðar úti á götum er mjög nauðsynleg, eða bara almennt séð mjög gáfuleg. En það þýðir ekki endilega að hún eigi að vera skylda samkvæmt lögum. Það er ein skylda samkvæmt lögum núna og þetta hefur farið í gegnum ferli með þessum þessu frumvarpi: Upprunalega var þetta bara eins og það er núna, 15 ára og yngri. Í meðhöndlun nefndarinnar kemur allt í einu breytingartillaga um að þetta eigi að vera upp að 18 ára og yngri og með tilmælum til ráðherra um að skoða hjálmaskyldu fyrir alla. Svo heyrir maður í framsöguræðum nefndarmanna að það eigi að leggja hjálma til jafns við öryggisbelti. Það er alvarlegt mál ef einhver er ekki með öryggisbelti. Það eru sektir og ýmislegt svoleiðis, eftir því sem ég best veit. Þannig að það virðist vera stefnan miðað við allt. Samt eru engin gögn um að þeim öryggismarkmiðum sem er ætlað að ná verði náð með þeirri ákvörðun.

Eins og staðan er í dag er verið að taka pólitíska ákvörðun, sem er ekki byggð á gögnum, um að 16 ára og yngri, grunnskólaaldurinn, hafi hjálmaskyldu. Það næst þó ekki alveg af því að þeir sem eiga afmæli nógu snemma á árinu geta allt í einu geta hætt að nota hjálmana þó þeir séu ekki alveg búnir með grunnskóla, ef ég er með tölurnar réttar í þessu. Sumir eiga afmæli í janúar og aðrir ekki fyrr en í desember. Það er dálítið vítt svið á þessu. Það næst því ekkert endilega, held ég, ég gæti haft rangt fyrir mér þar. Það kemur með of skömmum fyrirvara hvar þessi mörk liggi.

Þannig að ég bara vek athygli á þessari stöðu. Það er verið að taka fyrst ákvörðun, svo verið að athuga hvort hún sé rétt eða ekki. Þetta á að sjálfsögðu að snúa hinsegin. Það er í rauninni það eina sem ég geri athugasemd við. Ef gögnin sýna, þegar allt kemur til alls, að það verði jákvæðar tölur varðandi hjálmanotkun, jákvæðar tölur varðandi öryggi, jákvæðar tölur varðandi hjólanotkun og svo framvegis, með svona aðgerð, þá verð ég örugglega fyrsti maðurinn til að hoppa á hana. En gögn og upplýsingar þurfa að liggja fyrir, sem er ekki.

Þannig að ég mæli ekki með því að þetta sé gert. Það er betra að geyma þetta og taka ákvörðunina þegar það er búið að safna gögnunum, þess vegna fyrir gildistöku, en ég efast um að gagnasöfnunin gangi það fljótt. Það yrði þá væntanlega eftir ár eða svo sem það yrðu komin gögn til þess hægt sé að taka afstöðu um þetta af eða á.

Ég hef ekki séð né fengið gögn sem segja að það sé alvarlegt vandamál varðandi hjálmanotkunina eins og er. Þannig að ég sé ekki að það sé hundrað í hættunni hvort muni nokkrum mánuðum til eða frá eftir áramótin, hvort hjálmaskyldan verði lögð á um áramótin eða næsta vor eða yfirleitt. Þannig að ég geri alvarlega athugasemd varðandi ákvörðunarröðina í þessu.