149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

umferðarlög.

219. mál
[16:11]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er mikill léttir að einhver munur var á okkur. Ég er bara að segja að einhvers staðar verða mörkin að vera. Að mínu mati eru þau þarna. Ég get eiginlega ekki borið saman bílbelti og ljós vegna þess að ljós á bílum varða líka aðra, ekki bara þá sjálfa. (GBS: Rétt.) En mér finnst við ekki alltaf geta teygt okkur lengra og lengra með löggjöf og viðurlögum vegna þess að eitthvað gæti gerst. Hvar endum við þá? Við getum verið með áróður, ég er alveg til í að vera með áróður um það og hvetja. Ég hleypti ekki mínum drengjum út á sínum tíma án hjálms. Það hvarflaði ekki að mér af því að ég bar ábyrgð á þeim. Ég er að segja að það er svo margt annað sem getur líka skipt máli. Og hvar endum við? Eins og ég sagði einu sinni endar það með því að (Forseti hringir.) við förum aldrei út fyrir hússins dyr. Ég vil ekki vera þar.