149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[16:47]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið. Ég er sammála hv, þingmanni um að við þurfum að skoða heildarmyndina, alveg klárlega. Spurningin er líka: Hvernig getum við búið til jákvæða hvata til að fólk eða við einstaklingarnir hugsum betur um það, hugsum okkar gang?

Er hægt að vera með jákvæða hvata t.d. til að hvetja til þess að einstaklingar skipti úr dísil- og bensínbílum yfir í rafmagnsbíla? Vissulega eru þeir án gjalda í dag, a.m.k. hluti þeirra. Eigum við hugsanlega að gera enn þá betur og veita þeim sem kaupa sér rafmagnsbíla einhvers konar endurgreiðslu af sköttum, svo dæmi sé tekið?

Auðvitað á ríkið og sveitarfélög að ríða á vaðið, skipta öllum bílaflotanum út, velja umhverfisvænar lausnir þegar verið er að mublera upp ráðuneyti eða skrifstofur og slíkt. Það er hægt að gera ýmislegt, ég er sammála hv. þingmanni með það. Það er gaman að heyra ef stjórnvöld eru farin að huga að því að taka t.d. rafmagnsbíla í notkun. (Forseti hringir.) Þegar ég var í þeirri stöðu að þurfa að velja ráðherrabíl hér um árið þá vildi ég rafmagnsbíl en mátti ekki.