149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[18:43]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Nei, ég hef ekki áttað mig almennilega á því en þetta er það sem ég á við þegar ég tala um kerfisvæðingu þessa málaflokks. Búnar eru til nýjar verkefnisstjórnir, ráð, nefndir, stofur jafnvel, til þess að fjalla um þessi mál, án þess að sýnt sé fram á hvernig þetta nýja fyrirkomulag verði skilvirkara í því að finna raunverulegar lausnir eða hrinda þeim í framkvæmd. Eins og hv. þingmaður nefnir réttilega höfum við þegar stofnanir til að takast á við þessi mál og því þætti mér tíma þingsins betur varið í að ræða verkefni þeirra stofnana sem við höfum fyrir og hvaða aðferðir, hvaða verkefni, séu best til þess fallnar að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda fremur en að flækja málið með því að flagga nýjum verkefnisstjórnum til þess eins — eða það óttast ég að sé tilfellið — að geta sagt: Sjáiði, við erum að gera eitthvað. Við stofnuðum nýtt ráð, með einhverju nafni sem á að vera til þess fallið að sýna að menn séu raunverulega að ráðast í aðgerðir.

Þetta er auðvitað vandi á mörgum sviðum, að menn bregðast oft og tíðum við með því að flækja úrræðin, flækja umgjörðina, um lausn málanna, í stað þess að einbeita sér að lausnunum sjálfum og lausnum sem raunverulega virka. Hættan við þessar síauknu flækjur er líka sú að þetta kerfi verði sífellt óskilvirkara og jafnvel að það festist í einhverri hringhugsun með hugmyndir eins og að moka ofan í skurði, að það verði kerfislæg hugsun þar sem ein nefndin bakkar hina upp í því að viðhalda einhverju sem í raun kannski virkar ekki.