149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[21:01]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi ívilnanirnar þá er verið að gera eitt og annað í dag. Það er niðurfelling gjalda að hluta til í tengslum við rafmagnsbíla eða svokallaða hybrid-bíla, sem ganga fyrir bensíni eða dísil annars vegar og rafmagni hins vegar. Þar virðist bærilegur árangur vera að nást, en það er engu að síður þannig að hvað heildarmyndina varðar þá gerist þetta nú heldur hægt. Ég sá í einhverri umræðu fyrr á þinginu að á milli 1 og 2% bíla á landinu væru hreinir rafmagnsbílar, ef ég skildi fréttina rétt, þannig að það er langt í land. Ég gef mér að þessir hybrid-bílar séu mun hærra hlutfall en þeir eru þó þannig að að stórum hluta til notast þeir við hefðbundið jarðefnaeldsneyti. Á meðan við vitum ekki hvaða áhrif kolefnisgjöldin hafa er auðvitað erfitt við að eiga að ætla að nýta slík tæki til einhverrar stýringar. Ég man eftir þessum bílagjöldum, en ef ég fengi meiri tíma til að hugsa þá er alveg örugglega verið að vinna með fleiri ívilnandi aðgerðir. En hvað það varðar að fólk tjái sig á þeim nótum að það hafi verið heillavænlegt að WOW hætti rekstri, þá er það nú sem betur fer ekki svo. En hvernig ætla menn þá, þessir sömu hópar sem hafa gengið svona hart fram í því að tala á þeim nótum að losun sé svona mikil, að sýna næstu tölur? Það verður mjög erfitt fyrir þá að fagna þeim mikla árangri sem náðst hefur.