149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[14:56]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka andsvarið. Komið var inn á það hvað við erum seint í ferlinu með þennan lagabálk og maður hefði gjarnan viljað sjá hann koma fram fyrir fimm eða tíu árum. Nú er það svolítið okkar að finna þann skurðpunkt í málinu hvað okkur finnst sanngjarnt varðandi þau leyfi og annað sem hafa mörg hver verið mjög lengi í ferli, en kannski vegna vanmáttugrar stjórnsýslu hefur gengið mjög hægt að vinna í því.

Nefndarálit meiri hluta atvinnuveganefndar kom fram í kringum 20. maí, það er aðeins dottið úr mér hvenær það var nákvæmlega dagsett. En ástæðan, eins og hv. þingmaður þekkir, fyrir því að við förum aftur með málið til hv. atvinnuveganefndar milli 2. og 3. umr. er sú að við höfum verið að viða að okkur gögnum til að ná utan um nákvæmlega þann þátt máls sem snýr að rekstrarleyfum og útgáfu þeirra. Ég reikna því með að það gerist vonandi á næstu klukkustundum, ekki seinna en á morgun, að við fáum þá niðurstöðu og getum byggt okkar niðurstöður í framhaldinu fyrir 3. umr. á þeim gögnum sem við fáum vonandi og náum þá samkomulagi um hvar eðlilegur skurðpunktur er í þessu máli til að allrar sanngirni sé gætt sem best.

Málið er erfitt og flókið og eins og kom fram í ræðu minni hefði ég gjarnan viljað vera með það til umfjöllunar fyrir fimm eða tíu árum þegar við vorum alveg í byrjuninni. Þetta hefur verið mikið og langt ferli víða í útgáfu leyfa og öðru. Við erum svolítið að bregðast við eftir á í málinu. Þess vegna verður það líka enn flóknara. Breyturnar eru margar en við erum að reyna að takast á við þetta með fullri sanngirni.