149. löggjafarþing — 125. fundur,  19. júní 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[16:24]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum atkvæði um hlutdeildarsetningu á makríl. Frá því að veiðar hófust á makríl upp úr árinu 2008 hefur veiðum verið stýrt með reglugerðum. Nú er verið að úthluta samkvæmt aflareynslu 10 bestu ára af síðustu 11. Óánægja hefur verið með viðmiðunarár þeirra sem byrjuðu veiðar á línu og krók síðar þegar makríll fór að veiðast við strendur landsins og þeir bátar hefðu ekki skapað sér sambærilega veiðireynslu.

Vinstri græn hafa haft fyrirvara við frumvarpið og hafa lagt til breytingar til að mæta þessum sjónarmiðum. Náðst hefur ágæt sátt um það. Settur verður á fót 4.000 tonna leigupottur fyrir báta sem veiða með línu á krókum sem eykur mjög hlutdeild þeirra í heildarúthlutun á makríl. Veiðiflotanum verður skipt upp í tvo flokka eftir veiðarfærum og framsal bannað á milli þeirra kerfa en tegundatilfærsla leyfð.

Ég tel að þetta sé til mikilla bóta en eflaust verða ekki allir sáttir við sinn hlut fremur en verið hefur varðandi stjórn fiskveiða.