149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[18:07]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Mig langar örstutt að koma inn á þetta mál, kannski af því að ég er þeirrar gerðar að ég vil gjarnan að við byggjum umræðu okkar og ákvarðanir á staðreyndum. Í ljósi þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram hjá sumum hv. þingmönnum fyrr í dag finn mig knúinn til að rifja upp nokkrar óumdeildar staðreyndir en það er kannski tíska í dag í stjórnmálum að láta eins og staðreyndir séu ekki til, að láta eins og það sem gerst hefur hafi ekki gerst ef það hentar manns eigin málstað.

Hér hafa nokkrir hv. þingmenn lagt viðbrögð sem þessi aðgerðaáætlun er hluti af þannig upp að þetta snúist um einhverja sjálfstæðisbaráttu, einhverja vöðvahnyklun sannra Íslendinga gegn hinum vondu útlendingum sem ætla að knýja okkur til alls ills. Sömu hv. þingmenn minnast ekki einu orði á það að að baki þessu máli, þ.e. að afnema frystiskyldu sem þetta er andsvarið við, er hæstaréttardómur, dómur frá Hæstarétti Íslands. Einhvern veginn hentar það ekki málflutningi hv. þingmanna. Ég vona nú að þeir beri meiri virðingu fyrir dómum Hæstaréttar Íslands en öðrum dómum frá útlöndum sem hér hefur verið talað um. Þetta snýst ekki um það að berja sér á brjóst og segja: Ég er mesti Íslendingurinn, ég mun styðja og styrkja íslenskan landbúnað og íslenska bændur. Kjósið mig og hér verður allt hreint og fallegt. Við skulum sýna þessum vondu útlendingum í tvo heimana.

Það snýst ekki um það, það snýst um hvort við erum fólk sem bregst við dómum Hæstaréttar Íslands eða hunsum dóma Hæstaréttar Íslands.

Síðan snýst þetta einnig um samninga. Hér hefur verið farið háðulegum orðum um tollasamninga sem þetta er hluti af, ef svo má segja, í það minnsta innflutningur á búnaðarafurðum. Talað er um hina hræðilegu tollasamninga, um að varast að semja við hið hræðilega Evrópusamband, og það sett í samhengi við eitthvert allt annað mál, forseti, sem snýr að orku af því að það hentar að búa til þennan vef, af því það hentar þessum hv. þingmönnum að setja sig á þann stall. Hvaða tollasamningar eru þetta? Hvenær tókust þeir? Hvaða utanríkisráðherra var það sem sagði um umrædda tollasamninga, með leyfi forseta:

„Þetta er fagnaðarefni fyrir íslenska neytendur sem munu sjá þess stað í lækkuðu matvöruverði og útflytjendur sem munu vafalaust nýta sér þá möguleika sem í þessum samningum felast.“

Hvaða utanríkisráðherra var það sem sagði líka, með leyfi forseta:

„Samningurinn veitir ákveðin tækifæri fyrir landbúnað á Íslandi til að þreifa fyrir sér á markaði í Evrópu með nýjar vörur, eins og til dæmis í kjöti. Á sama tíma svarar samningurinn brýnni þörf fyrir auknar innflutningsheimildir til ESB fyrir skyr en einnig fyrir lambakjöt. Hvað varðar heimildir ESB til innflutnings til Íslands tel ég að umfang þeirra sé ekki með þeim hætti að landbúnaðurinn eigi að óttast það. Íslenskur landbúnaður er sterkari en svo.“

Þetta er djarflega mælt af þessum hæstv. utanríkisráðherra sem heitir Gunnar Bragi Sveinsson. Í hvað ríkisstjórn sat hæstv. þáverandi utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson? Jú, hann sat í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem lokaði þessum tollasamningum 17. september 2015 og lætur hér nú eins og þeir hafi einhvern veginn dottið úr loftinu í fangið á einhverjum linkum sem nú séu við stjórnvölinn og séu að bugast undan hinu erlenda valdi. Þetta er ekki hægt, forseti. Það er ekki hægt að tala þannig í þessari virðulegu stofnun eins og staðreyndir og raunveruleiki skipti bara engu máli lengur.

Sú ríkisstjórn sem nú situr við völd, ríkisstjórn þeirra þriggja flokka sem hana skipa, er með aðgerðum sínum að færa Ísland í fremstu röð hvað varðar það að berjast gegn einni mestu vá sem heimsbyggðin og heilbrigðisstofnanir um allan heim vara við, sýklalyfjaónæmi. Við erum að komast hér enn lengra, komast í fremstu röð og það er eitthvað sem aðrar ríkisstjórnir hefðu kannski átt að gera, til nánast hverrar einustu áætlunar í þessari aðgerðaáætlun hefði verið hægt að grípa, þar með talið af ríkisstjórn hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Það var ekki gert. Það er hins vegar verið að gera það núna. Ég hélt og ég vonaði að við gætum rætt um þessa aðgerðaáætlun af sanngirni, kannski með smávon í brjósti, af því að hér er verið að stíga góð skref, að við nýttum ekki þetta mál hér sem sprek á okkar pólitíska bál til að hefja okkur sjálf upp því að þetta er gott mál, forseti. Ég held að allir í þessum sal geti sameinast um að þetta sé gott mál sem við hefðum þess vegna átt að geta afgreitt tiltölulega athugasemdalaust ef við værum sanngjörn. En við erum víst ekki öll sanngjörn.