149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:46]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir auðvitað vænt um að sú félagslega taug sem ég talaði um að Framsóknarmenn hefðu sé enn til staðar. Það er orðið býsna djúpt á henni og ansi langt síðan Framsóknarflokkurinn hefur tekið þátt í vinstri stjórn. Það næsta er að draga Vinstri græn með sér yfir í hægri stjórn.

Það er endalaust hægt að tala um útgjaldaaukningu og hv. þingmaður getur leikið sér að því með því að taka mið af hvaða ártali sem honum sýnist. Hér erum við hins vegar í 2. umr. um fjármálaáætlun og hljótum að taka mið af fyrstu tillögum sem komu í núverandi fjármálaáætlun. Þá blasir staðan við, það er niðurskurður á fjölmörgum sviðum eins og bent hefur verið á. [Hlátur í þingsal.] Hv. þm. Ólafur Gunnarsson getur hlegið eins og honum sýnist, en ef hann kann ekki að lesa tölur á blaði, þá hann um það.

Það er heldur engin stórsókn í menntamálum, og aukning í umhverfismálum um einhver prósent úr einhverju sem ekkert er dugar lítið við þær aðstæður sem við búum við þar sem við þurfum hugsanlega að leggja til 2,5% af vergri landsframleiðslu gegn hamfarahlýnun ef okkur á að auðnast verkefnið. Væntanlega komumst við ekki upp með að eyða minna en aðrar þjóðir í kringum okkur. Sú sókn er auðvitað úr engu og mér finnst það snautlegt og vandræðalegt, sérstaklega auðvitað fyrir Vinstri græn sem kölluðu síðustu ríkisstjórn Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokksins hægri sinnuðustu ríkisstjórn sem mynduð hefði verið. Hún gerði þó miklu betur í umhverfismálum. Það fyrsta sem þessi ríkisstjórn gerði var að (Forseti hringir.) lækka kolefnisskattinn um helming.