149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[11:34]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir ágæta ræðu hans, sérstaklega söguskýringuna, sem mér þótti athyglisverðust.

Þetta verður mjög stutt hjá mér, ég fer ekki í tæknileg atriði, innleiðingaratriði, fyrirvara eða neitt slíkt. Það er í rauninni markmiðið sem hefur legið mér mest á hjarta, sérstaklega hvert eiginlegt markmið er með innleiðingu þriðja orkupakkans. Er staðreyndin ekki sú að við erum að innleiða þriðja pakkann af fimm sýnilegum pökkum? Er það ekki staðreyndin, að markmiðið sé að við göngumst undir sameiginlegan raforkumarkað í Evrópu? Og ef svo er, hvers vegna erum við að innleiða orkupakka þrjú núna ef það hefur aldrei verið ætlunin að fylgja því markmiði sem Evrópusambandið er búið að undirbúa og lagði í þennan leiðangur fyrir langalöngu?