149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[11:35]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Til að gera langt mál eins stutt og hægt er erum við í þessu EES-samstarfi. Það er óumdeilt og hefur verið lykilatriði fyrir okkur og okkar velsæld. Það sem við gerum í hagsmunagæslu okkar þar, og í minni tíð hefur hún eflst stórlega sem er afskaplega mikilvægt, er að við rýnum mál sérstaklega frá fyrstu tíð til að koma í veg fyrir að það sé eitthvað sem við þurfum að hafa áhyggjur af í þessu. Ef EES-samningurinn væri eins og hann var þegar hann var samþykktur væri hann ónothæfur. Þá voru ekki einu sinni til tölvur, a.m.k. ekki eins og við þekkjum þær í dag, langur vegur frá, eða snjallsímar eða hvað það nú er.

Hugmyndin er sú að þetta sé áfram virkur markaður. Orkan hefur verið þarna frá upphafi. Ég get ekki farið í það nákvæmlega núna, en flest okkar eru sammála um ýmsa hluti sem snúa að orku og öðru slíku. Það er alveg skýrt í EES-samningnum, og var tekin umræða um það þegar hann fór af stað á sínum tíma, að við höfum fulla stjórn á orkuauðlindum okkar. En ef við sjáum eitthvað sem við höfum áhyggjur af fyrir Ísland reynum við að gera allt sem við getum til að sneiða hjá því í okkar hagsmunagæslu.