149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[11:43]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þar kom að því, ég er kominn í hóp meiri hluta þjóðarinnar sem er með þráhyggju fyrir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni að hans mati. (SDG: Langt síðan.) Að sjálfsögðu. Við erum öll þar. [Hlátur í þingsal.] Hv. þingmaður, þú ert búinn að átta þig á þessu, þetta gengur allt út á þig, [Hlátur í þingsal.] allt út á þig. Þriðji orkupakkinn er aukaatriði, þetta er allt um hv. þingmann, við erum öll með þráhyggju út af þér og getum ekki hugsað um annað en þig. (Gripið fram í.) Nákvæmlega. Þú sást þetta.

Hv. þingmaður, það er heill kafli um spurt og svarað á vef utanríkisráðuneytisins. Ég flutti hér langa ræðu, sem ég get ekki endurflutt, þegar ég lagði þetta mál fram. Ég næ ekki að fara í gegnum það á einni mínútu út frá þeirri spurningu sem hér var lagt upp með. Ef hv. þingmaður er ekki búinn að fá rökin fyrir því eftir alla þessa umræðu get ég ekkert gert. Hann getur verið ósammála en að halda því fram að þau hafi ekki komið fram er vægast sagt sérstakt.