149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[12:24]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Blekkingar snúast um að búa til staðreyndir sem eru ekki til, og um það get ég nefnt mörg dæmi í málflutningi Miðflokksmanna. Ég nefndi eitt sem er mjög skemmtilegt, það er þegar menn töldu að verið væri að leggja Orkustofnun undir ACER, það kom fram í málflutningi manna hér fyrr. En gott og vel, við í Vinstri grænum höfðum ákveðnar efasemdir um fyrsta og annan orkupakkann vegna þessa aðskilnaðar og þessarar markaðsvæðingar og þar við situr. Síðan kemur þriðji orkupakkinn. Hann er allt annars eðlis. Það er ekkert í honum, að því er okkur finnst, með þeim umbúnaði sem er á þessu máli núna, sem gerir það að verkum að okkur beri skylda til þess, af því að við höfðum gagnrýnt fyrsta og annan orkupakkann, að vera á móti þeim þriðja, kannski þeim fjórða líka, sem mun víst að mestu leyti snúast um græna orku. En að ég hafi beitt blekkingum, (Forseti hringir.) um það verður hver og einn að dæma fyrir sig.