149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[12:36]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að hinkra með að ræða málið efnislega þangað til á eftir. Fyrst langar mig aðeins til að ræða málsmeðferðina og umræðuna í kringum þetta mál upp á síðkastið. Þá ætla ég síðan út í það sem ég tel vera aðalatriðið sem við ættum að vera að ræða hér, sem er samhengi málsins við stjórnarskrá lýðveldisins. En fyrst langar mig að fjalla um þjóðaratkvæðagreiðslur.

Upp á síðkastið hefur verið ákveðið ákall um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál. Nýlega var í kosningakerfi Pírata lagt til að haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um það en sú tillaga var felld. Mörgum þótti það geta litið illa út og höfðu áhyggjur af því. Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að ákvarðanir beri ekki að taka eftir því hvernig þær líta út heldur eftir því hvort þær eru réttar eða rangar. Ég get ekki farið yfir alla þá rökræðu sem átti sér stað um þá annars ágætu tillögu en rökin sem ég færði gegn henni og myndi færa aftur eru þau sem ég ætla að flytja hér.

Frá upphafi hafa Píratar aðhyllst nýja stjórnarskrá. Þar er að finna ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu að frumkvæði kjósenda. Skilyrðið er að 10% kjósenda geti skrifað undir andmæli gegn lögum sem Alþingi hefur samþykkt og þá fari þau lög í þjóðaratkvæðagreiðslu. Eftir aðkomu samtaka eins og Orkunnar okkar og eftir málflutning Miðflokksins í allt sumar og vor og eftir að þetta mál hafði verið sennilega pólitískasta og umdeildasta málið á þessu ári, og kannski því síðasta líka, hefur því ákalli einfaldlega ekki verið komið til skila. Orkan okkar er mjög flott samtök með flotta heimasíðu, þau koma málstað sínum vel á framfæri, eru með kanónur úr flestum ef ekki öllum flokkum, hafa verið með auglýsingar á strætóskiltum og undirskriftasöfnun í Kringlunni — og tókst að safna núna, samkvæmt mínum nýjustu heimildum, 16.000 undirskriftum gegn málinu. 10% af kjósendum á Íslandi eru u.þ.b. 25.000. Talan er mjög langt frá þessu 10% markmiði. Ef ný stjórnarskrá hefði verið lögfest í dag væri ekki búið að uppfylla þau grunnskilyrði sem þyrfti til að knýja þetta mál í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Niðurstaðan af atkvæðagreiðslu innan Pírata hvað varðaði þessa ályktun var að fólk hafði áhyggjur af því að málið gæti litið eitthvað andlýðræðislega út. Þess í stað tökum við núna upp, og ég segi hér eins og ég sagði í þeim rökræðum, að berist undirskriftir 10% kjósenda munu Píratar leggja fram tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál sem og önnur, samkvæmt þeim takmörkunum sem er að finna í frumvarpi til nýrrar stjórnarskrár. Reyndar er í þessum töluðu orðum tillaga í kosningakerfi Pírata þess efnis og hefst atkvæðagreiðsla um hana eftir örfáa daga. Þá verður það bara hluti af hinu þinglega ferli hjá Pírötum. Ef einhver úti í samfélaginu vill fá þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekið mál þarf ekki að rífast við þingmenn Pírata á Facebook og ekki mæta á félagsfund Pírata, það dugar að safna einfaldlega undirskriftunum og sýna fram á að það sé raunverulegt ákall.

Það kemur mér sjálfum á óvart að ekki hafi gengið betur að safna undirskriftum en það sem hefur vakið athygli í þessu máli er að ákallið sést á vefsíðu Orkunnar okkar, sést í málflutningi ákveðinna valinkunnra kanóna í fjölmiðlum og sést í blaðagreinum en sést ekki í söfnun undirskrifta og ekki í mótmælum úti á Austurvelli, sem sum okkar hafa þokkalega reynslu af að horfa á.

Við verðum því að spyrja: Ætlum við að halda þjóðaratkvæðagreiðslu þegar einhver stingur upp á því eða þegar einhver skoðanakönnun sýnir að rúmur meiri hluti sé á móti einhverju máli út frá einhverri spurningu? Hvenær eigum við halda þjóðaratkvæðagreiðslu? Það er ágætisleiðsögn í því fína plaggi sem er frumvarp til nýrrar stjórnarskrár. Þegar 10% kjósenda krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu skal hún haldin og þá munu Píratar leggja fram slíka tillögu og styðja hana með ráðum og dáð. Þetta ætti auðvitað að vera hluti af lagasetningarferlinu sjálfu en ekki stefnu eins flokks en við komumst vonandi í umræðu um efni stjórnarskrárinnar síðar.

Þessu langaði mig að henda hérna fram vegna þess að þetta mál hefur ekki bara vakið upp spurningar um efnisatriði málsins, reyndar eiginlega minnst ef eitthvað er, heldur spurningar um málsmeðferð. Hvers vegna er þessi flýtir? Hvert er hlutverk þjóðarinnar og kjósenda í því að taka ákvarðanir hér á bæ? Það er mikilvægt að við séum skýr um það hvernig við ætlum að haga því. Það dugar ekki að henda fram einhverjum hugmyndum stjórnmálamanna um það hvað eigi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Einn hv. þingmaður sem situr á Alþingi í dag stakk upp á því á sínum tíma að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um verðtryggingu. Ég varð ekki var við að hann fengi nokkrar undirtektir. Eigum við þá að halda þjóðaratkvæðagreiðslu? Varla. Nei, við eigum að gera það út frá einhverjum skýrum formerkjum. Píratar munu gera það samkvæmt þeim formerkjum sem verður að finna í nýrri stjórnarskrá.

Það er svo sem sem ekki frá fleiru að segja um þjóðaratkvæðagreiðslumálið en mér fannst samt mikilvægt að halda þessu til haga, bæði vegna þess að þegar ákallið kemur um þjóðaratkvæðagreiðslur eigum við að taka samtalið um það hvernig við ætlum að haga þjóðaratkvæðagreiðslum. Þær skipta máli, það skiptir máli hvernig við tökum ákvarðanir. Það skiptir máli hvernig Alþingi bregst við þegar það er ákall frá kjósendum um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin mál. Ég segi því bara við Orkuna okkar, Miðflokkinn og alla aðra sem hafa áhuga á að koma þessu máli til þjóðarinnar: Hjálpum til við að safna undirskriftunum. Það er reyndar mjög lítill tími eftir núna en hefur verið mjög mikill tími hingað til. Þá skal ég persónulega leggja fram þær breytingartillögur sem ég er með tilbúnar í tölvunni minni við þetta tiltekna mál.

Það færi svona fram: Það eru fjórar breytingartillögur, ein fyrir hvert þingmál, þar sem sett er í gildistökuákvæði hvers máls að það taki gildi við samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þannig yrði sú þjóðaratkvæðagreiðsla bindandi. Ég er með þetta í tölvunni minni núna. Ég get lagt þetta fram í dag ef einungis er sýnt fram á að ákallið sé í samræmi við þau skilyrði sem eru sett í frumvarpi til nýrrar stjórnarskrár. Ég vænti þess að þetta verði brátt opinber stefna flokksins.

En það sem mér finnst líka mikilvægara að ræða en einstaka efnisatriði sem hv. þingmenn hafa verið að karpa hér um fyrr í dag er samhengi málsins við stjórnarskrána almennt. Það vill nefnilega þannig til að þótt ýmislegt sé sagt um þetta mál sem er ekki rétt þegar betur er að gáð eru áhyggjurnar samt kannski lögmætar og skiljanlegar. Fólk hefur áhyggjur af því að með orkupakka þrjú sé verið að framselja eignarhald yfir auðlindum, nýtingarrétt á þeim eða eitthvað því um líkt. Það er ekki rétt og allt í góðu. Fólk hefur áhyggjur af því að þetta standist ekki stjórnarskrá. Það er ekki rétt en allt í lagi, það eru kannski skiljanlegar áhyggjur. Fólk hefur áhyggjur af því að þetta framselji of mikið vald frá hinu fullvalda ríki Íslandi. Það er ekki rétt en allt í lagi. Öll þessi álitamál varða nýja stjórnarskrá.

Ástæðan fyrir því að fólk ætti að hafa áhyggjur af þessum hlutum er ekki sú að við séum hér með orkupakka þrjú til umfjöllunar heldur það að við höfum ekki enn þá drattast til að lögfesta nýja stjórnarskrá þar sem tekið er á þessum álitamálum, eins og auðlindum í þjóðareign. Það er áratugagamalt umræðuefni sem allir ættu að vera í meginatriðum sammála um núna. Það er í nýrri stjórnarskrá og ef hún væri lögfest þyrfti ekkert að taka einhverja rökræðu um það.

Hvað varðar stjórnarskrárlegt samræmi er í nýrri stjórnarskrá ferli til að tryggja það með svokallaðri Lögréttu þar sem farið er yfir það sem hluta af lagasetningarferlinu sjálfu, ekki með bréfaskriftum við fræðimenn úti í bæ heldur sem hluta af lagasetningarferlinu sjálfu. Það er gott.

Hvað varðar framsalið, sennilega eitt misskildasta ákvæðið í nýrri stjórnarskrá eða stjórnarskrármálum almennt, er talað um að hugsanlega sé verið að framselja of mikið vald. Hvernig vitum við það? Ja, ekki með því að lesa gildandi stjórnarskrá, hún er þögul sem gröfin um það. Þess vegna er framsalsumræðan alltaf á þeim stað að það er þessi fræðimaður á móti hinum fræðimanninum og þingmenn þurfa einhvern veginn að ákveða hvorum fræðimanni þeir trúa betur eða telja hafa meira vit á efninu. Það er engin formleg leið til að ákvarða eða meðhöndla framsal valds. Auðvitað á að vera ákvæði í stjórnarskrá um það, ekki til að opna fyrir að hægt sé að framselja endalaust vald heldur þvert á móti til að koma böndum á það, til að það sé einhver lína, til að sníða stakk utan um það umræðuefni og lýðræðislega öryggisventla á það hvers konar vald við erum að framselja, hversu lengi, með hvaða skilyrðum og hvernig við myndum taka það til baka.

Þetta er allt saman í nýrri stjórnarskrá. Ég veit ekki um neitt í þessari umræðu sem ætti að hreyfa við almenningi sem á ekki miklu frekar heima í umræðu um það góða mál.

Eins og ég segi vonast ég til að geta tekið þátt í efnislegri umræðu á eftir um það sem hefur verið fjallað um hér fyrr í dag. Ég hlakka til þess og við sjáum til hvort tíminn endist.

Á mánudaginn munum við greiða atkvæði um þetta mál. Ég vænti mjög fastlega að þá verði því lokið. Eftir það legg ég til að í stað þess að halda áfram að karpa um hvort þetta eða hitt sé í aðfaraorðum orkupakka þrjú eða fjögur förum við að tala um það sem raunverulega skiptir greinilega mestu máli hér og það er ný stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)