149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[13:09]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Í umfjöllun hv. utanríkismálanefndar í sumar hefur ekkert nýtt komið fram í þessu máli og í þingsal fram að þessu í dag hefur heldur ekkert nýtt komið fram um orkupakka þrjú. Ég verð að segja fyrir mig að ég bjóst við meiru miðað við þá áherslu sem þingflokkur Miðflokksins lagði á að halda skyldi málinu lifandi í sumar til að það mætti rannsaka betur, skoða nýja fleti og ræða það til hlítar. Ég bjóst við meiru eins og ég segi, að þá kæmi raunverulega eitthvað nýtt fram í dag en það hefur ekki gerst. Þetta eru sömu tuggurnar, ef svo má segja.

Í mínum huga hefur málið aðeins orðið enn þá skýrara. Það hefur komið fram að það er mjög vel undirbúið í alla staði og í því er ekkert, ég endurtek ekkert, herra forseti, sem skaðar hagsmuni íslensku þjóðarinnar, hvorki í nútíð né framtíð, þvert á móti. Umræðan og þá óttinn við að eitthvað slæmt sé í orkupakka þrjú hefur fyrst og fremst snúist um eftirfarandi atriði:

1. Að um sé að ræða framsal á valdi til erlendrar stofnunar, ACER.

2. Að um sé að ræða brot á stjórnarskrá.

3. Að gengið sé á fullveldi þjóðarinnar.

4. Að bann við lagningu sæstrengs brjóti gegn fjórfrelsi EES og geri íslenska ríkið skaðabótaskylt.

5. Að þær staðfestingar á fyrirvörum sem Alþingi hefur fengið frá annars vegar orkumálastjóra ESB og hins vegar EFTA hafi ekkert gildi varðandi þá fyrirvara sem lagðir eru fram í málinu.

6. Að við þurfum ekki að innleiða orkupakka þrjú, hann skipti engu máli hvort sem er.

7. Að neitun hafi engar pólitískar afleiðingar fyrir Ísland gagnvart samstarfsþjóðum okkar í EFTA og EES.

8. Að með því að samþykkja orkupakka þrjú glati Íslendingar yfirráðum yfir orkuauðlindum sínum.

Herra forseti. Til að gera langa sögu stutta halda framangreindar fullyrðingar ekki vatni. Engin þeirra stenst skoðun. Um það eru okkar virtustu og fremstu sérfræðingar sammála eins og sjá má af gögnum um yfirferð málsins í hv. utanríkismálanefnd.

Ég flutti ræðu um málið í vor þar sem ég fór yfir ofangreind atriði. Fáir heyrðu þá ræðu, því miður, þar sem hin ágæta hljómsveit Hatari kom fram á sama tíma í Eurovision. Mig langar því til að reifa þann hluta ræðunnar þar sem ég fer yfir rök um hvers vegna við ættum ekki að senda málið til baka til sameiginlegu EES-nefndarinnar sem sumir hafa sagt að sé hin eina rétta leið og hafi engar afleiðingar.

Það kom í ljós við vinnslu málsins að 102. gr., þar sem kveðið er á um að ríkið geti hafnað tilskipunum, er fyrst og fremst öryggisventill, tæki í samningsferlinu í nefndinni fyrir ríki til að skapa sér samningsstöðu. Það er ástæða fyrir því að engin fordæmi eru fyrir því að ríki hafni tilskipunum eftir að ríki hafa lokið vinnu í sameiginlegu nefndinni og komið sér saman um niðurstöðu. Að gera slíkt væri misbeiting á réttindum okkar innan EFTA.

Í meirihlutaáliti hv. utanríkismálanefndar er vandlega farið yfir þessa þætti. Nefndin fékk m.a. á sinn fund Carl Baudenbacher sem útskýrði að innan sameiginlegu EES-nefndarinnar hvíli sú lagalega skylda á fulltrúum að leggja sig fram við að leysa málin. Upp á latínu nefnist reglan favor contractus. Hann talaði um að höfnun myndi án efa skaða hagsmuni íslenska ríkisins verulega.

EFTA-ríkin verða að tala einni röddu gagnvart EES og Ísland hefur skyldur gagnvart bandamönnum sínum. Sú regla kallast á ensku, með leyfi forseta, „duty of loyalty“. Samstarf okkar byggist á gagnkvæmu trausti og náinni samvinnu þjóða og því gera bæði Liechtenstein og Noregur ráð fyrir því að við séum heil í okkar samstarfi og afléttum hinum stjórnskipulega fyrirvara í orkupakka þrjú sem þau hafa þegar gert.

Þannig að svarið er, herra forseti: Ástæða þess að við kjósum að innleiða reglur um orkumarkað með fyrirvörum er að við erum aðilar að innri markaði Evrópu.

Sameiginlega EES-nefndin er síðan sá vettvangur þar sem þjóðir geta aðlagað regluverkið aðstæðum í heimalandinu. Þjóðþing hafa aðkomu að því ferli. Í starfi sameiginlegu nefndarinnar liggur sveigjanleikinn en ekki í því að hafna reglum þegar aðlögun hefur átt sér stað.

Herra forseti. Það er ekkert í orkupakka þrjú sem leggur þá skyldu á herðar Íslendingum að leggja sæstreng. Ekkert. Það að vitna í aðfaraorð orkupakkans máli sínu til stuðnings, líkt og sumir hafa gert, hefur ekki lögfræðilegt gildi. Aðfaraorðin í orkupakka þrjú eru í samræmi við aðfaraorð orkupakka tvö sem nú er í gildi en sem sumir kjósa að líta algjörlega fram hjá sem er merkilegt í sjálfu sér.

Ísland er fullvalda ríki. Það er algjört lykilatriði í þessu máli.

Dr. Bjarni Már Magnússon, doktor í hafrétti og prófessor við Háskólann í Reykjavík, kom fyrir utanríkismálanefnd og hefur einnig skrifað nokkrar blaðagreinar um málið. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa grein dr. Bjarna Más frá 20. júlí sl. sem birtist í Kjarnanum:

„Í samræmi við tækniþróun á 19. öld skapaðist þörf til að setja reglur um sæstrengi utan lögsögu ríkja. Alþjóðlegt regluverk fyrir sæstrengi var fyrst komið á með alþjóðlegum samningi árið 1884 sem nefndur var á íslensku „Samningur um vernd á hraðfréttaþráðum er lagðir eru neðansævar“ … Danir gerðust aðilar að samningnum og þar með varð Ísland bundið af honum.

Við gerð hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna frá 1982 var stuðst við samninginn frá 1884. Í hafréttarsamningnum kemur fram að öllum ríkjum sé heimilt að leggja neðansjávarstrengi og -leiðslur á landgrunnið og á úthafinu í samræmi við nánar tilgreind skilyrði. Það ríkir því töluvert frelsi varðandi lagningu neðansjávarleiðslna og -strengja. Það eru yfirleitt einkaaðilar sem notfæra sér þessi réttindi aðildarríkja hafréttarsamningsins. Of langt mál er að fara út í þá sálma hér.

Í þessu samhengi verður að hafa í huga að hið lögfræðilega landgrunnsheiti er annað en hið náttúruvísindalega. Þetta veldur talsverðum ruglingi. Landgrunnshugtakið í skilningi þjóðaréttar hefst utan landhelgi ríkja, þ.e. oftast 12 sjómílum frá svokölluðum grunnlínum. Frelsið að því varðar lagningu neðansjávarleiðslna og -strengja á landgrunninu tekur ekki til landhelginnar.

Í 4. mgr. 79. gr. hafréttarsamningsins kemur beinlínis fram að ekkert, í þeim hluta samningsins sem fjallar um landgrunnið, hafi áhrif á rétt strandríkisins til að setja skilyrði vegna strengja eða leiðslna, sem ná inn í land eða landhelgi þess. Fullveldi strandríkja í landhelginni er nær algjört. Er þetta í samræmi við samninginn frá 1884 en sá samningur gilti einvörðungu utan landhelgi aðildarríkja hans.

Öll aðildarríki EES-samningsins (sem og ESB sjálft) eru aðilar að hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna. Í hafréttarsamningnum er tekið fram að almennt skuli ákvæði annarra samninga, sem aðildarríki hafréttarsamningsins eiga aðild að, vera í samræmi við hafréttarsamninginn.

Það er ekkert í reglum EES-samningsins eða sambærilegum reglum ESB-réttar sem felur í sér skyldu aðildarríkjanna til að heimila lagningu sæstrengs eins og Skúli Magnússon lýsir vel í grein sinni. Slík skylda fær heldur ekki stoð í helsta samningi þjóðaréttar um hafið, hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna, og á sér enga stoð í því alþjóðlega regluverki sem verið hefur við lýði síðan 1884 um sæstrengi. Réttur Íslands til að setja skilyrði vegna sæstrengja sem ná inn á íslenskt landsvæði eða landhelgi Íslands stendur óhaggaður hvað sem þriðja orkupakkanum líður.“

Ég var með örlítið lengri ræðu en ég sé að ég hef ekki mikinn tíma til að klára hana. Mig langar samt að nefna fjórfrelsið og skaðabótaskyldu. Fjórfrelsið skyldar ríki ekki til að byggja mannvirki eða aðra innviði. Rétt eins og varðandi hráakjötsmálið sem sumir hafa vísað í væri eins og íslenska ríkið yrði skaðabótaskylt ef það neitaði því að byggja t.d. höfn vegna þess að einhver aðili vildi flytja út harðfisk (Forseti hringir.) og ríkið væri skyldað til að auka kvótann til að viðkomandi gæti fengið meira magn af fiski til að selja. Það er náttúrlega fráleitt og þetta eru ekki sterk rök, herra forseti. Ég lýk máli mínu í bili.