149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:01]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að halda raforkuverði lágu en ekki síður til að fara í þær aðgerðir sem þarf til að nota okkar umhverfisvænu orku á skynsamlegan hátt með komandi kynslóðir í huga. Það þýðir að gera þarf kröfu m.a. til raforkufyrirtækjanna en ekki síður til stórnotendanna. Það þýðir að stórnotendur sem hafa talið sig hafa sjálfsagðan aðgang að samningum upp í hugsanlega 65 ár, tímabundna samninga að notkun sameiginlegra auðlinda, eru spurðir spurninga. Það er ekki lengur sjálfgefið að stórnotendur geti gengið allt að því hindrunarlaust í að nýta orkuna nema gegn eðlilegu gjaldi. Það eru bara breyttir tímar og við gerum kröfu til þeirra sem miðla orku og dreifa orkunni fyrir okkar hönd úr sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar.

Þess vegna munum við í Viðreisn, og vonandi við öll í þinginu, gera það sem í okkar valdi stendur til að koma af stað regluverki. Hluti af orkupakkanum er þar, (Forseti hringir.) stuðlar að því að við eflum kynslóðirnar, (Forseti hringir.) aukum og fjölgum tækifærum þeirra en minnkum þau ekki eins og sumir vilja gera.