149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:58]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir ræðuna og vil segja í upphafi að ýmislegt af því sem hún taldi upp sem verkefni sem væru brýn get ég mjög vel tekið undir. Sérstaklega vil ég nefna jarðakaupamálið og það mun ekki standa á okkur í því efni.

Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra las upp úr bréfi þeirra tvímenninga Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts og Stefáns Más Stefánssonar frá 19. ágúst sl. Það bréf staðfestir að þeir telja að hinn lagalegi fyrirvari hafi verið nógsamlega kynntur. Ég leyfi mér að vekja athygli á því að þeir segja ekkert um þjóðréttarlegt gildi hans. Mjög öflugir lagamenn hafa haldið því fram, ég nefndi Davíð Þór Björgvinsson í ræðu minni í morgun, að hann hafi ekkert þjóðréttarlegt gildi. Fimm hæstaréttarlögmenn hafa tekið undir það og héraðsdómari, allt valinkunnir menn. Hefur hæstv. forsætisráðherra einhverjar lögfræðilegar álitsgerðir sem (Forseti hringir.) staðfesta að þessi lagalegi (Forseti hringir.) fyrirvari hafi gildi að þjóðarétti?