149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:13]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Þetta eru allviðamikil mál sem hann tæpir á hér. Byrjum á nýtingu vindorku. Ég er sammála hv. þingmanni að við eigum að ræða framtíðina hvað varðar nýtingu vindorku. Ég held að hún geti falið í sér mikla möguleika til að framleiða græna orku með hætti sem er óafturkræfur miðað við t.d. hinar stóru vatnsaflsvirkjanir. En við þurfum auðvitað að ræða það í þingsal.

Við erum með lög um smávirkjanir, þau eru orðin 12 ára gömul. Þau miðast við 10 megavött sem þýðir að virkjanir undir 10 megavöttum fara ekki í hið hefðbundna rammaáætlunarferli. Eigum við að ræða það hvort ástæða sé til að breyta því? Er hagur af því að selja inn á kerfið? Alveg tvímælalaust, ekki vegna þriðja orkupakkans, heldur vegna þess að við vitum að það mun verða eftirspurn eftir rafmagni, t.d. í þeim orkuskiptum sem eru fram undan.

Að lokum kom hv. þingmaður með góða ábendingu um matvælaframleiðslu. Þar held ég að við hv. þingmaður, af því að við höfum rætt þetta áður, séum alveg sammála. Nú er í mótun matvælastefna fyrir Ísland og ég geri mér vonir um að hún muni leggja aukna áherslu á matvælaframleiðslu hér heima þannig að við getum í auknum mæli verið sjálfum okkur nóg. Við getum gert miklu betur í því. En aftur, það held ég að við getum gert þrátt fyrir að við samþykkjum þriðja orkupakkann.