149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:25]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sat í þingsal þegar var verið að spyrja um fyrirvarana einhvern tímann í maí og ég sá fólk koma hér, labba fram og til baka, tala saman og draga upp símann sinn og fletta þessu upp. Og svo kom hv. þm. Birgir Ármannsson, minnir mig, og las einfaldlega upp þessa fyrirvara, fann þá bara strax. Þá kom á fólk þetta svokallaða fát og það fór að spyrja: Bíddu, voru þeir að tala um þetta? Voru þeir að tala um hitt? Já, það er hérna, gjörðu svo vel. Fyrirvararnir komnir. Ekkert voðalega flókið.

Þegar talað er um þetta þjóðréttarlega séð og samningsbrotlega séð, þá liggur það fyrir, þegar allt kemur til alls, að það er Alþingi til að byrja með sem ákveður hvort sæstrengur verði lagður eða ekki. Það er enginn samningur eða neitt svoleiðis sem hægt er að brjóta fyrr en það er a.m.k. búið að fara hér í gegn. Eftir það fer fram alls konar uppboðsferli og því um líkt þar sem einhverjar væntingar geta myndast um eitthvað sem hægt væri að brjóta á.

Það er alveg skýrt og hefur komið skýrt fram í umræðunni að það hreyfist ekkert hérna fyrr en það gerist á samráðsvettvangnum sem er skilgreindur í orkupakkanum, sem er samráðsvettvangur milli þeirra landa þar sem tenging myndast. Öll þau ríki sem eru á þeim samráðsvettvangi þurfa að kvitta undir það að gerð verði tenging á milli þeirra landa. Það er ekki fyrr en þá sem er komið á einhvers konar áætlun að tenging eigi að vera, sem er þá farið í hvernig eigi að koma í framkvæmd. Það eru enginn einstakur aðili sem hefur neinn rétt til að koma og segja: Ég veit að þið eruð ekki með neina áætlun um að það verði strengur hérna á milli, en ég ætla samt að leggja hann. Ég veit ekki hvaða þjóðréttarlegt gildi kemur málinu við einu sinni fyrr en eftir að Alþingi er búið að ákveða að leggja eigi sæstreng eða ekki.