149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:27]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Já, já, fát kom á menn, vissu ekki alveg hvað væri verið að spyrja um. Það er alveg skiljanlegt og ekkert óeðlilegt við það.

Það sem við erum einfaldlega að segja: Við spurðum einfaldra spurninga, sem málið byggist í raun og veru algjörlega á, þ.e. lagalega fyrirvaranum sem varð til þess að megnið af stjórnarþingmönnum lagðist á sveif með málinu. Við spurðum: Hvar eru þeir? Í hvaða formi? Hvaða efni og hvaða gildi hafa þeir? Við höfum ekki fengið svör enn þá. Nú er komið fram í lok ágúst. Við höfum ekki enn þá fengið svör um hvaða þjóðréttarlegt gildi þeir hafa.

Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa upp úr álitsgerð lögfræðinganna Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts á bls. 35:

„Ekki má þó gleyma að hafni Orkustofnun umsókn fyrirtækis þar að lútandi“ — þ.e. að tengja með sæstreng — „gæti fyrirtækið snúið sér til ESA með kæru sem gæti endað með samningsbrotamáli gegn Íslandi. Slík staða gæti reynst Íslandi erfið.“

Við höfum áhyggjur af þessu og við spyrjum: Halda fyrirvararnir? (Gripið fram í: Já.) Við bíðum svara. Það þýðir ekkert að segja já. Það verður að útskýra og rökstyðja það.