149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:31]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Vegna síðustu orða hæstv. ráðherra vil ég geta þess að það er ég sem er að gera andsvar við hæstv. ráðherra. Að öðru leyti vil ég segja eftirfarandi: Ég átti ekki við það að við þyrftum að afla okkur einhvers sérstaks pólitísks stuðnings við að beita 102. gr., en hafandi tekið slíka ákvörðun myndi kannski muna um það að við fengjum pólitískan stuðning frá mikilvægum ríkjum við málaleitan okkar varðandi þá undanþágu sem við myndum auðvitað vilja leita frá reglugerðum 713 og 714. Um það snýst málið.

Ég vil víkja aðeins að öðru og það er þetta sem kemur fram í margnefndri álitsgerð Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts og Stefáns Más Stefánssonar þar sem þeir taka að eigin frumkvæði upp möguleikann á samningsbrota- og skaðabótamálum. Þetta er á bls. 35. Við þekkjum slík mál af eigin reynslu og hæstv. fjármálaráðherra þekkir mætavel að ríkissjóður hefur þurft að punga út stórum fjárhæðum vegna skaðabóta vegna samningsbrota sem hafa leitt af sér að skaðabætur hafa fallið á ríkissjóð sem eftir því sem næst verður komið hlaupa á milljörðum króna. Þess vegna hlýt ég að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi ekki áhyggjur af því fyrir ríkissjóð ef sú staða kæmi upp sem þeir ágætu höfundar tveir lýsa í neðanmálsgrein 62. Þeir vekja upp möguleikann á samningsbrotamáli synji Orkustofnun um tengingu við íslenskt raforkukerfi af hálfu aðila sem leita eftir slíkri tengingu (Forseti hringir.) og telja stöðu Íslands ekki vænlega í slíku máli. Hefur ráðherra ekki áhyggjur (Forseti hringir.) af afleiðingum þess arna fyrir ríkissjóð? Er þetta a.m.k. ekki mál sem óvarlegt er að kanna ekki nánar (Forseti hringir.) áður en þingsályktunartillagan verður samþykkt?