149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:14]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir. Ég ítreka spurninguna um hvort hv. þingmaður hafi ekki áhyggjur af mögulegu samningsbrotamáli komi það fram ef við innleiðum ekki á réttan máta.

Mig langar að staldra aftur við 16. ágúst og þá við fund utanríkismálanefndar þar sem fram komu margir gestir fyrir nefndina og höfðu margt til málanna að leggja, komu vissulega fram ýmis sjónarmið og verið var að ræða um lagningu sæstrengs. Vissulega hefur hv. þingmaður sagt að það væri ekkert í orkupakka þrjú um lagningu sæstrengs, það er rétt. En ég vil inna hv. þingmann eftir því hvort hún sé fylgjandi lagningu sæstrengs komi til þess, ef við náum á þann punkt á seinni stigum. Mig langar að heyra álit hv. þingmanns á því .

Í ræðu hv. þingmanns kom fram að við erum að vinna að orkustefnu fyrir Ísland sem mun sjálfsagt líta dagsins ljós á næsta ári. Finnst hv. þingmanni ekkert sérstakt að við séum að innleiða orkutilskipun ESB áður en við mótum okkar eigin stefnu?