149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[13:38]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit að hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson veit að það eru almennt mjög mörg samningsbrotamál í gangi. Mér skilst að nú um stundir séu þau meira en 600. Við þekkjum það sjálf, við þekkjum dæmi þess og ég veit að hv. þingmaður gerir það líka. Oft þegar slík mál eru höfðuð er það vegna þess að lönd hafa ekki klárað að innleiða. Það hefur tekið of langan tíma, stundum af því að það er einfaldlega ranglega gert. Alla jafna höfum við a.m.k. bætt úr því. Þrátt fyrir að sviðsljósi hafi verið beint að þessu eina tiltekna máli í Belgíu í umræðunni nú, þar sem markmiðið er alveg skýrt, þá spyr ég á móti: Hver er fréttin? Belgía segist ætla að gera eitthvað, gerir það síðan ekki og samningsaðilinn segir: Heyrðu mig, þið gerðuð ekki það sem þið sögðust ætla að gera, þið þurfið að bæta úr því. Hver er fréttin í því? Við erum með málið hjá okkur um sjálfstæði eftirlitsins inni í Orkustofnun, erum þar af leiðandi að innleiða með réttum hætti og þess vegna sé ég ekki hvað er sameiginlegt með þeim tveimur málum.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort ég hafi heyrt rétt að hann hafi haldið því fram að samningsbrotamál hafi verið höfðuð á grundvelli aðfaraorða?

Í lokin finnst mér skipta máli að við ruglum ekki hlutum saman. Við erum að innleiða reglur þar sem við segjumst ætla að fylgja leikreglum ef við stígum inn á völlinn. Það sem skiptir máli hér er: Við ráðum því hvort við stígum inn á völlinn. En ef við stígum inn á völlinn gilda sameiginlegar reglur. Það er það sem við höfum kvittað upp á að ætla að gera, en við erum ekki að gangast við því að þurfa að stíga inn á völlinn gegn okkar vilja.

Og í lokin, af því hv. þingmaður talar um að því sé haldið fram að við getum ekki beitt 102. gr., (Forseti hringir.) þá held ég að nægilega margir stjórnarliðar hafi (Forseti hringir.) sagt það og það alveg skýrt: Við getum beitt 102. gr. Það er bara mitt mat að ekki sé ástæða til. Við gerum það þegar þess þarf.