149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[13:59]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Hér eru undir þrjú mál sem tengjast þriðja orkupakkanum, tvö frumvörp og ein þingsályktunartillaga. Í fyrsta lagi breyting á raforkulögum, í öðru lagi breyting á fyrrnefndum lögum og lögum um Orkustofnun og að lokum breyting á þingsályktun um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

Umræða um þessi mál er tekin saman af hagkvæmnisástæðum og hef ég í hyggju að fjalla um þau eins og efni standa til, saman og hvert í sínu lagi. En sökum þess hversu öll þessi mál tengjast því máli sem var til umfjöllunar í gær mun þess að sjálfsögðu gæta í umfjöllun minni. Ég fór í gær yfir þá skoðun mína að þeir lagalegu fyrirvarar sem stjórnarflokkarnir hyggjast setja við málið væru algerlega haldlausir og mun halda þeirri umfjöllun minni áfram. Mikilvægt er að hafa í huga að þessir lagalegu fyrirvarar spiluðu aðalhlutverk í því hvernig málið var kynnt í upphafi og þá sérstaklega til að fella niður allar varnir innan þingflokka stjórnarflokkanna. Af þeim sökum er mikilvægt, herra forseti, að ræða um gildi þessara fyrirvara, hvar þá sé að finna, hvers efnis þeir séu, á hvaða formi þeir birtist okkur og loks, þegar þeirri skoðun er lokið, hvort þeir hafi eitthvert gildi að þjóðarétti.

Herra forseti. Með innleiðingu á tilskipunum sem koma frá sameiginlegu EES-nefndinni afléttum við þjóðréttarlegum fyrirvara, fyrirvara sem við gerðum í þessu tilviki, og það gerum við um leið og við samþykkjum þingsályktunartillöguna sem var til umræðu í gær. Hvað þýðir það þegar við afléttum þeim þjóðréttarlega fyrirvara, herra forseti? Þar með verðum við skuldbundin til að innleiða allar þær reglur sem þriðji orkupakkinn felur í sér, sem á mannamáli þýðir að lög innan lands þarf að aðlaga, þeim þarf að breyta, þau þarf að bæta og það þarf að bæta við þau til þess að orkupakkinn teljist hafa verið innleiddur réttilega. Íslensk lög mega ekki vera í andstöðu við þær reglur sem í pakkanum er að finna.

Þetta er mjög mikilvægt að hafa í huga, herra forseti, þegar við skoðum gildi lagalega fyrirvarans að þjóðarétti. Við erum að innleiða þriðja orkupakka Evrópusambandsins og um leið er þessi lagalegi fyrirvari ákvörðunarástæða margra fyrir því að styðja hann. Þar eru belti, axlabönd og allt það eins og menn hafa lýst fjálglega í ræðustól Alþingis. Þess vegna, herra forseti, er ég að skoða þetta.

Gott og vel. Við ætlum sem sagt að innleiða þriðja orkupakkann með þessari samþykkt en með lagalegum fyrirvara. Ég var búinn að fjalla í gær um fimm hugsanlega fyrirvara. Ég hafði talið upp ellefu en ég ætla ekki að eyða tíma þingsins í að fara yfir þá alla, ég tek bara þá sem eru bitastæðastir. Ég kem nú að þeim sjötta, en þeir gætu verið fleiri miðað við útskýringar og ábendingar fjölda stjórnarþingmanna í vor og í sumar þegar þeir leituðust við að svara fyrirspurnum okkar um hvar lagalega fyrirvarann væri að finna.

Sjötta og líklegasta ábendingin sem barst var að fyrirvarann væri að finna í væntanlegri reglugerð ráðherra sem við höfum undir höndum drög að. Hún er óútgefin. Við höfum drög að henni. Í þessum drögum að reglugerð er að finna í 3. gr. texta þess efnis að ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 713/2009 sem varðar raforkutengingar milli landa komi ekki til framkvæmda á Íslandi meðan slíkri tengingu hefur ekki verið komið á. Til þess þurfi samþykki Alþingis. Þetta er auðvitað efni fyrirvarans. Það vita allir. Í 1. og 2. gr. er reglugerðin innleidd. Þar er texti sem segir til um að reglugerðin sé innleidd og hún sé í fylgiskjali með reglugerð ráðherra.

Hér eru fjölmörg álitamál, ef svo er sem virðist að hér sé leit að lagalega fyrirvaranum endanlega lokið. Í fyrsta lagi má spyrja hvort útgefin reglugerð af ráðherra í ríkisstjórn Íslands hafi eitthvert sérstakt gildi ef hún fer í bága við ákvæði Evrópureglugerðir sem við höfum innleitt. Berlega. Augljóslega. Við erum að innleiða tilskipanir Evrópuráðsins í 1. og 2. gr. þessarar reglugerðar og hún fylgir með í fylgiskjali. Og í 3. gr. sömu reglugerðar ráðherra kemur þessi fyrirvari um að ákveðin ákvæði gildi ekki. Við erum sem sagt að innleiða — en við erum ekki að innleiða.

Hefði ekki verið nær, herra forseti, að texti 3. gr. reglugerðarinnar væri leiddur beint í íslensk lög en væri ekki í reglugerð ráðherra? Sérstaklega með tilliti til þess að hér virðist vera um mjög mikilvægt ákvæði að ræða miðað við málflutning stjórnarþingmanna, þ.e. að þarna sé hinn lagalega fyrirvara að finna. Í reglugerðardrögunum er reglugerð orkupakkans innleidd í 1. og 2. gr. en í 3. gr. er í raun kveðið á um að einhver ótiltekin ákvæði reglugerðar Evrópuráðsins, sem verið er að innleiða í fyrri greinum, séu í raun ekki innleidd. Stenst þetta? Mun Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, ekki gera alvarlegar athugasemdir við slíka innleiðingu, rétt eins og málaferlin við Belgíu bera vitni um, og krefjast þess að reglugerðin verði innleidd, eins og við munum hafa lofað, nk. mánudag?

Annað, herra forseti, sem ég geri alvarlegar athugasemdir við um þessa leið stjórnvalda er í 4. gr. draga að reglugerð hæstv. iðnaðarráðherra. Þar er að finna svofellt ákvæði, með leyfi forseta:

„Reglugerð þessi er sett með stoð í 45. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, með síðari breytingum. Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.“

Þetta er náttúrlega ákvæði sem er að finna í öllum reglugerðum. Það er vísað í lagastoðina. Það er vísað í lögin sjálf sem reglugerðin styðst við. Það er alkunna að reglugerð verður að hafa stoð í lögum. Ég held það sé kennt bara á fyrstu önn í lögfræði.

Ef litið er til 45. gr. raforkulaga, herra forseti, þá er heimildin sem ráðherrar er fengin til útgáfu reglugerðar svofelld, með leyfi forseta. Hvað stendur þar?

„Ráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara í reglugerð.“

Nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara í reglugerð? Hvaða laga? Raforkulaga?

Svo mörg voru þau orð, herra forseti.

Er hér að finna fullnægjandi lagastoð til ráðherra að byggja á við útgáfu reglugerðar þar sem ný skipan raforkumála á gjörvöllu EES-svæðinu er innleidd í íslenska löggjöf? Þarna er ráðherra gefin heimild til að setja nánari ákvæði um framkvæmd raforkulaga í reglugerð.

Stofnun eftirlitsaðila á öllu EES-svæðinu hefur víðtækar heimildir og jafnvel víðtækari heimildir en álitsgjafar ríkisstjórnarinnar sjálfir telja standast stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Þarna er verið að innleiða í íslensk lög svo víðtækar heimildir nýrrar eftirlitsstofnunar á öllu svæðinu að álitsgjafarnir er miklum vafa, stórkostlegum vafa, um að það standist stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Með tilliti til þess má spyrja: Er þetta fullnægjandi lagastoð undir reglugerð ráðherra? Svari hver fyrir sig. Það er augljóst. Nei. Hér er byggt á veikum grunni, tel ég vera, mjög veikum grunni. Af hverju er ekki a.m.k. sett inn fullnægjandi ákvæði í raforkulög svo að reglugerð ráðherra styðjist við fullnægjandi lagastoð ef menn vilji yfir höfuð ekki að setja þennan fyrirvara hreinlega í lög en ekki reglugerð eins og virðist vera ráðgert?

Þetta atriði, herra forseti, er alvarlegt. Það er alvarlegt ef menn ætla með opin augu að setja reglugerð sem langlíklegast styðst ekki við fullnægjandi lagastoð.

Hefur þessi fyrirvari í reglugerðinni, sem ég er búinn að rökstyðja að langlíklegast sé að hafi ekki fullnægjandi lagastoð, eitthvert gildi? Fyrir utan það sem ég nefndi um að hann hefði ekki lagastoð. Hefur fyrirvarinn sem ég hef hér lýst eitthvert þjóðréttarlegt gildi? Nei, að sjálfsögðu ekki, herra forseti. Þetta er að engu hafandi, að innleiða reglugerð að fullu en samt ekki innleiða hana. Það á að innleiða Evrópureglurnar með þessum hætti en það á samt ekki að gera það. En ríkisstjórnin ætlar samt að gera það.

Nei, herra forseti. Raddirnar um lagalega fyrirvarann hafa þagnað grunsamlega í sumar. Skyldi það vera vegna þess að fylgismenn málsins hafa í sumar séð að fyrirvarinn, eða fyrirvararnir, sem voru í raun forsenda samþykkis margra þingmanna stjórnarliðsins, hafa auðvitað ekkert þjóðréttarlegt gildi? Er það þess vegna sem raddirnar þögnuðu í sumar?

Það verður einnig að hafa í huga að sú lausn um lagalega fyrirvarann sem ríkisstjórnin valdi var lakari kosturinn sem tveir margnefndir álitsgjafar ríkisstjórnarinnar höfðu lagt til í álitsgerð sinni og hafði alls ekki hlotið neina umfjöllun né sætt neinni sérstakri rannsókn, enda töldu fræðimennirnir hana ekki gallalausa, sem kom svo berlega í ljós.

Stjórnin hefur þannig ekki getað útskýrt fyrir okkur eða öðrum hvaða gildi hinn lagalegi fyrirvari hafi að þjóðarétti, ef nokkurt. En einnig, herra forseti, hefur stjórninni mistekist að útskýra fyrir okkur, þó allra frekast fyrir almenningi í þessu landi, af hverju við erum að undirgangast þær reglur sem þau sjálf segja að eigi ekki að gilda hér. Af hverju? Þeim er fyrirmunað að útskýra fyrir þjóðinni þörfina á samþykki orkupakkans. Þá er ég ekki að tala um útskýringar í anda málfundaæfinga ungliðahreyfinga stjórnmálaflokkanna. Ég er að tala um útskýringar sem fólk skilur og sem almenningur skilur og tekur mark á. „Af því bara“ er helsta svarið.

Samtryggingarflokkunum, þ.e. stjórnarflokkunum og stjórnarsamstöðunni, hefur orðið tíðrætt um að ekkert nýtt hafi komið fram í málinu. Ég ætla að nefna nokkur dæmi.

Í fyrsta lagi: Það hefur komið í ljós að lagalegu fyrirvararnir halda ekki. Það er leitun að þeim sem kemur hingað upp og heldur því fram að þeir haldi þjóðréttarlega.

Í öðru lagi: Samningsbrotamálið gegn Belgíu sýnir okkur svart á hvítu að ef við innleiðum ekki orkupakkann réttilega eigum við á hættu að fá slíkt mál á hendur okkur. Við erum að gera það með opin augu.

Í þriðja lagi: Fjórði orkupakkinn, vetrarpakkinn svokallaði, er kominn. Hann hefur birst. Hann er algjörlega óræddur í tengslum við þetta mál.

Í fjórða lagi: Einhverjir stjórnarþingmenn hafa lýst því yfir í blaðagreinum og víðar að best væri að setja inn ákvæði um þjóðaratkvæði þegar kemur að því að menn vilji leggja sæstreng. Þessir ágætu hv. þingmenn geta því varla samþykkt málið, geri ég ráð fyrir, eins og það lítur út núna. Ég hef ekki trú á því að menn sem tala með þeim hætti að þeir telji best að bæta við málið ákvæði um þjóðaratkvæði geti samþykkt þetta mál ef ekki er orðið við þessari kröfu þeirra. Varla.

Í fimmta lagi: Reglugerð ráðherra. Eins og ég hef bent á í þessari ræðu minni og hefur víðar komið fram hefur hún langlíklegast ekki fullnægjandi lagastoð. Þá er ég að tala um 45. gr. raforkulaga.

Öll þessi fimm atriði og einhver önnur sem aðrir ræðumenn hafa nefnt eru ný í málinu. Og svo segja þeir að það sé ekkert nýtt fram komið. Ég held að þetta sé ærið. Þetta er ærið.