150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:34]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er að spá í að nota þetta andsvar ekki til að tala mikið meira um hagspár og hvernig með þær sé farið og hverju eigi að byggja á annað en að segja að það er Hagstofunnar að gera hagspár en kannski ekki hlutverk okkar á Alþingi að vinna þær. En auðvitað getum við haft skoðun á þeim hagspám sem gefnar eru út og unnið með þær þannig.

Hv. þingmaður telur fjárfestingu hafa verið of litla, gott og vel. Það sem mig langar er að biðja hann um að vera pinkulítið meira konkret. Hvar telur hv. þingmaður að fjárfestingin ætti að vera meiri? Og svo hins vegar, vegna þess að hann talar um að bæta ekki í báknið, hvort honum finnist einhvers staðar vera of aukið þegar kemur að heilbrigðiskerfinu, að skólunum, því sem við erum að setja í umhverfismálin. Ég tel skipta máli að tala meira konkret um það sem hv. þingmaður myndi vilja sjá fara meira í og hvað það er sem hann telur, miðað við þær krónur sem við höfum til skiptanna, að mætti setja minna í eða hvort það ætti að gefa einhvern veginn allt öðruvísi.