150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:17]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Áfram um ljósleiðaraverkefnið og veikustu byggðirnar. Undanfarið hefur það einfaldlega verið þannig að þeim fjármunum sem ætlaðir eru til byggðamála hefur verið beint þar inn til að jafna þá stöðu sem þingmaður bendir á og er öllum ljós. Ég tek algjörlega undir það sem hv. þingmaður sagði í fyrra andsvari sínu um hversu lítinn greinarmun við gerum á litlum einyrkjarekstri og stórum fyrirtækjum í öllum þessum þungu kerfum sem við ætlumst til að fyrirtækin fylgi. Ég held að það sé bara eitt og sér alveg sjálfstætt verkefni að vinda ofan af því.

En það sem mig langar að teyma umræðuna inn á aftur í mínu seinna andsvari er áhugi okkar á að losa þannig um störf að þau verði unnin án staðsetningar og biðja þingmanninn kannski að fjalla um það. Ég held að í grundvallaratriðum séum við nú ekkert ósammála um mikilvægi þess að við hættum að líta á stofnanir ríkisins og hins opinbera sem eitt fast lögheimili. En mig langar að ræða hvaða leiðir og hvaða hvata við gætum virkjað til að þetta gangi hraðar fram. Rétt eins og við höfum rætt um ljósleiðaraverkefnið og hvaða aðstæður það skapi fólki til þess að vinna störf óháð staðsetningu er nauðsynlegt að við förum að einangra og stýra þeim hvötum sem við getum beitt til þess að þetta raungerist, að við flytjum störfin aftur út og þau verði raunverulega án staðsetningar.

Varðandi eftirlitskerfið, að lokum, virðulegi forseti: Við eigum líka að beita eftirlitskerfinu til að vera bætandi. Þá nefni ég t.d. samkeppniseftirlit þar sem Samkeppniseftirlitið getur orðið meiri liðsmaður í því að nýta fjárfestingar betur í stað þess að vera bara löggan og segja hvað ekki má, heldur líka benda á hvaða leiðir hægt er að fara.