150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:45]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Vegna orða hv. þm. Birgis Þórarinssonar um framlög til rannsókna í landbúnaði vil ég bara veita andsvar eins og orðanna hljóðan er, án þess að leggja fram sérstaka spurningu við hv. þingmann. Nú í fyrsta sinn í mjög langan tíma erum við þó að stíga það skref að auka framlög til landbúnaðarrannsókna. Það kemur ekki einungis úr einni átt, það eru fleiri stoðir þar undir. Við höfum líka gengið í það að auka framlög til háskóla og síðan fjármagn til rannsókna.

Ég held að það megi ekki gleyma því í þessu samhengi, í umræðunni, hvernig við búum rannsókna- og vísindafólk í þessari atvinnugrein undir það að sækja sér síðan rannsóknaframlög annars staðar frá. Það veit ég og vil upplýsa hv. þingmann um að ný stefna Landbúnaðarháskóla Íslands er mjög hnitmiðuð í því að skapa aðstæður fyrir starfsmenn sína og vísindafólk sitt til að sækja í rannsóknasjóði. Það er því miður þannig, og við getum haft á því sterkar skoðanir og rætt það lengi dags, að hlutur landsbyggðarinnar í rannsóknasjóðum og ýmsum þróunarsjóðum er frekar dapur og það er umræða sem við ættum að taka og jafnvel rannsaka í hv. fjárlaganefnd í fjárlagavinnunni, hvernig dreifing styrkjanna er. Því vildi ég koma á framfæri, við erum að sönnu að endurreisa aftur rannsóknir í landbúnaði og við erum að búa þær grundvallarstofnanir sem þeim geta sinnt undir það að geta sótt sér fjármagn annars staðar frá til að sinna rannsóknum sem ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni að eru mikilvægar.