150. löggjafarþing — 5. fundur,  16. sept. 2019.

staða ríkislögreglustjóra.

[15:24]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ríkislögreglustjóri talar um að það gæti spillingar innan lögreglunnar og að verið sé að gagnrýna hann fyrir ógnarstjórnun og óvandaða stjórnsýsluhætti vegna þess að hann viti af spillingu innan lögreglunnar. Hann segir á sama tíma í sama viðtali, með leyfi forseta:

„Það er efni í sérstakt viðtal ef til starfsloka kemur vegna þessara ásakana. Það myndi kalla á annað og dýpra viðtal um það sem hefur gengið á bak við tjöldin.“

Finnst hæstv. dómsmálaráðherra ásættanlegt að ríkislögreglustjóri viti af og tali um spillingu innan lögreglunnar, innan sinna raða, án þess að kæra? Án þess að gera neitt í því? Ber honum ekki frumskylda til að kæra og hefur það verið gert?