150. löggjafarþing — 5. fundur,  16. sept. 2019.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

45. mál
[17:26]
Horfa

Flm. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P):

Virðulegur forseti. Píratar setja umhverfismál á oddinn á þessu þingi sem og því síðasta. Þetta mál er eitt af mörgum sem við munum leggja fram til að bregðast við því mjög sterka ákalli sem verið hefur í samfélaginu um aðgerðir í þágu náttúrunnar og aðgerðir í loftslagsmálum. Náttúran sem hýsir okkur öll hefur því miður ekkert málbein til að tala fyrir sínum hag. Því þurfa aðrir að taka til varna fyrir hana. Til þess höfum við t.d. ýmis umhverfis- og útivistarsamtök og borgara sem láta sig málefni náttúrunnar varða. Það mál sem ég mæli fyrir nú kann að virðast smátt í sniðum og kannski helst til tæknilegt en það snýr að því að greiða leið þeirra sem vilja taka til varna fyrir náttúruna og fyrir umhverfið að dómstólum til þess að taka til varna fyrir náttúruna og að því leytinu til er þetta gríðarlega mikilvægt mál. Eins og staðan er núna á náttúran sér ekki nógu sterka málsvara fyrir dómstólum þegar kemur að framkvæmdum sem geta haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir náttúruna og umhverfið.

Ég mæli því fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Með frumvarpinu er umhverfis-, útivistar- og hagsmunasamtökum sem eiga aðild að kærumálum fyrir nefndinni gert kleift að skjóta úrskurðum hennar til dómstóla, óháð því hvort þau eigi svokallaðra lögvarðra hagsmuna að gæta af úrlausn málsins — svona eru þeir skilgreindir í lögum um einkamálaréttarfar. Þetta mál var áður flutt á síðasta löggjafarþingi og er óbreytt síðan þá. Þetta frumvarp er unnið í góðu samstarfi og að tilstuðlan Landverndar. Hugmyndin að því kom upp eftir fund með Landvernd þegar rætt var um aðgang þessa sama félags að því að geta kært úrskurði kærunefndar um umhverfis- og auðlindamál til dómstóla. Í ljós kom að samtökin geta ekki kært niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar til dómstóla eins og eðlilegt væri þegar kemur að stjórnvaldsákvörðunum, með einhverjum undanþágum þó. Við viljum bæta úr því hér með því að fella á brott úr lögunum lista af undanþágum svo að umhverfis-, útivistar- og hagsmunasamtök hafi kæruheimild og þeim sé veitt heimild til að kæra alla úrskurði úrskurðarnefndarinnar. Og til að taka af allan vafa um kæruheimild samtakanna bætist ný málsgrein við 4. gr. laganna um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála þar sem þeim er veitt kæruheimildin óháð því hvort þau eigi lögvarðra hagsmuna að gæta samkvæmt einkamálaréttarfari.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála var sett á laggirnar í kjölfar innleiðingar Árósasamningsins svokallaða í íslenska löggjöf. Meginstoðir samningsins eru þrjár. Fyrsta stoðin leggur samningsaðilum, þ.e. stjórnvöldum viðkomandi ríkja, skyldur á herðar varðandi aðgang almennings að upplýsingum um umhverfismál. Önnur stoðin skyldar aðildarríkin til að tryggja almenningi þátttöku í ákvarðanatöku sem lýtur að einstökum framkvæmdum sem hafa áhrif á umhverfi og með þriðju stoðinni styður samningurinn framangreind réttindi með ákvæðum um aðgang að réttlátri málsmeðferð sem stuðlar að auknu vægi samningsins.

Þetta frumvarp sem við ræðum hér bætir til muna þriðju stoð Árósasamningsins og eykur þar af leiðandi vægi hans í íslensku réttarfari. Mér finnst mikilvægt að þetta komi fram vegna þess að þetta er mjög mikilvæg réttarbót, líka fyrir almenning í landinu, að geta haft aukna aðkomu að framkvæmdum, aukna aðkomu að ákvörðunum sem teknar eru um nærumhverfi eða um landið sitt.

Á síðasta þingi var gagnrýnt að frumvarpið myndi opna á leið fyrir félagasamtök til að skjóta úrskurðum til dómstóla rétt áður en framkvæmdaleyfi væru gefin út. Þetta gæti leitt af sér aukinn kostnað, jafnvel sokkinn kostnað, fyrir verktaka þar sem mikil undirbúningsvinna gæti þegar hafa farið fram. Við þeirri gagnrýni segi ég það eitt að náttúra Íslands, náttúruvernd og hagsmunir heildarinnar, skipta mig meira máli en mögulegt tap einstakra verktaka. Kannski og vonandi verður þetta frumvarp hvati til þeirra að standa betur að undirbúningi verkefna og vinna þau í sátt við félagasamtök og aðra sem láta sig náttúru Íslands varða. Til þess er leikurinn gerður, til að auka aðkomu almennings að ákvörðunum um umhverfi sitt.