150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Í gær var kynnt skýrsla um efnahagsmál á Íslandi sem OECD skilaði. Þar kennir ýmissa grasa en mig langar til að gera sérstaklega að umræðuefni það sem sagt er um opinbera innviði og opinberar fjárfestingar. Þar er á það bent að nauðsynlegt sé að beita mun ákveðnari vinnubrögðum þegar ákvarðanir eru teknar um opinberar fjárfestingar, hvernig þeim er fylgt eftir, hvernig eftirliti með þeim er háttað og tryggt sé að þær skili tilætluðum árangri. Sérstaklega eru nefnd til sögunnar tvö dæmi, annars vegar Vaðlaheiðargöng og hins vegar yfirstandandi bygging, endurnýjun Landspítalans.

Ég nefni þetta vegna þess að Alþingi samþykkti í apríl árið 2018 gagnmerka þingsályktunartillögu sem fjallaði einmitt um tryggingu gæða, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga. Þar er gert ráð fyrir því að fjármálaráðherra skili tillögum um það hvernig betur megi standa sig fyrir 1. nóvember árið 2018. Það er sem sagt að verða ár síðan eindagi þessa máls rann út. Ég hef ekki orðið var við að neinni vinnu hafi verið skilað, nein nefnd sett í gang. Ég tel þetta grafalvarlegt vegna þess að hér er eftir mjög miklu að slægjast. Við erum e.t.v. að hefja mikið framkvæmdatímabil. Þess þarf í það minnsta. Við erum að ræða um stórar samgönguumbætur víða um land og þá er mjög mikilvægt (Forseti hringir.) að í gangi sé regluverk sem tryggi sem besta nýtingu fjármuna. Það regluverk er ekki til í dag.