150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

störf þingsins.

[14:13]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langar að gera samspil loftslagsmála og mannréttinda að umtalsefni í dag, kannski ekki síst sem varaforseti Evrópuráðsþingsins, einnar öflugustu alþjóðastofnanir á sviði mannréttinda sem Ísland á aðild að, en þar eru loftslagsmálin að verða meira áberandi þingstörfum en áður. Í gær veittu mannréttindasamtökin Amnesty international Gretu Thunberg og loftslagsbaráttuhreyfingunni FridaysForFuture verðlaun fyrir það gríðarlega mikilvæga starf sem þau hafa unnið á aðeins einu ári til að vekja athygli á og krefjast þess að róttækari opinberar aðgerðir þarf til að koma í veg fyrir enn meiri hlýnun loftslagsins. Í gær á Íslandi á sama tíma veitti Íslandsdeild Amnesty fernum samtökum ungs fólks verðlaun fyrir baráttu þeirra fyrir róttækari aðgerðum gegn hamfarahlýnun. Óska ég þeim öllum innilega til hamingju með verðlaunin og hvatninguna.

Þessi verðlaun stórra alþjóðlegra mannréttindasamtaka sýna að loftslagsbreytingarnar eru nátengdar mannréttindum og baráttunni fyrir þeim. Michelle Bachelet, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna og yfirmaður mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna, fjallaði einmitt um náin tengsl loftslagsbreytinga og mannréttinda í opnunarerindi sínu á fundum ráðsins fyrir rúmri viku. Þar staðhæfði Bachelet að loftslagsógnin væri orðin mesta ógn við mannréttindi víða um heim og ein af mestu uppsprettum borgarastríða og átaka, réttindum frumbyggja til lífs og viðurværis væri ógnað með skógareldum í Amazon-skógum og bráðnun íss við norðurskautið. Umhverfissinnar þurfa að búa við ógnanir og jafnvel árásir, sérstaklega í Suður-Ameríku, og opinber umræða sem niðurlægir ungt fólk sem hefur áhyggjur af loftslaginu, framtíð sinni og komandi kynslóða er orðin algengari. Aukinn fjöldi fellibylja og aftakaveðra á borð við það sem gerðist á Bahamaeyjum drepur ekki bara íbúa heldur neyðir fólk til að flýja heimkynni sín. Þetta er líka staðreynd með hið víðáttumikla Sahel-steppusvæði Afríku.

Sú pólitík sem við þurfum á að halda til að taka á því hættuástandi er ekki til staðar í dag, sagði Greta Thunberg. Það er ástæða þess að hvert og eitt okkar verður að þrýsta á þá sem bera ábyrgðina frá öllum mögulegum stöðum og fá fólk til að bregðast við. Tökum þetta til okkar, stundum pólitík sem tekur á hættuástandinu og styðjum (Forseti hringir.) við kröfur ungs baráttufólks fyrir róttækari aðgerðum til að hindra enn frekari loftslagsbreytingar.