150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

veggjöld og borgarlína.

[10:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég sé ekki bara fyrir mér að við gætum tekið upp ný gjöld heldur sé ég fyrir mér að við séum nauðbeygð til að gjörbreyta allri gjaldtöku af ökutækjum, eldsneyti og samgöngum í landinu. Það er út af orkuskiptunum. Í fyrra gáfum við eftir 3 milljarða í virðisaukaskatti til að fá inn umhverfisvæna bíla. Við tökum engin vörugjöld af rafmagnsbílum. Við tökum engan virðisaukaskatt af rafmagnsbílnum ef hann er undir ákveðnu kostnaðarverði og við gefum mjög mikinn afslátt ef hann er dýr í innkaupum. Þessir bílar fara um göturnar án þess að leggja nokkuð til vegna þess að þeir fara aldrei á dæluna. Þeim er að fjölga og þeim er að fjölga hratt og þeim fjölgar næsthraðast í heiminum á Íslandi, umhverfisvænum bílum og rafmagnsbílum. Þetta kallar á algjörlega nýja hugsun um það hvernig við byggjum upp gjaldakerfið. Meðalaðflutningsgjald af innfluttum bíl hrapar hratt út af breytingum sem við höfum nú þegar innleitt.

Þannig að, já, ég sé fyrir mér að fólk muni í framtíðinni meira greiða fyrir notkun á vegakerfinu og það muni borga miklu minna fyrir að eignast bíl, komast yfir bíl, og það muni sjaldnar fara á dæluna og sjaldnar greiða eldsneytisgjöld. Við þurfum að innleiða algjörlega nýja hugsun.

Spurt er: Mun ríkið að hluta til styðja við borgarlínu? Við höfum í tveimur síðustu ríkisstjórnum fengið áskorun frá öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu um að fara í samtal um að greiða betur fyrir almenningssamgöngum. Við höfum verið í því samtali og það eru engar fréttir í því. Um er að ræða nýjan samgönguás um höfuðborgarsvæðið þar sem við sjáum fyrir okkur að hægt verði að veita almenningssamgöngum forgang. Það þarf að reisa þessa vegi en þar geta líka hópferðabílar farið um, eins og ég sé þetta, leigubifreiðar og jafnvel fólk sem kemur sér saman í bíl, þ.e. þar sem eru kannski þrír eða fleiri í sama ökutækinu. Þetta ætti að greiða fyrir umferð. (Forseti hringir.) Aðalatriðið er að samkomulagið sem er í smíðum er um stórfellda uppbyggingu á samgöngum á höfuðborgarsvæðinu til að greiða fyrir umferð.