150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

einföldun regluverks.

5. mál
[16:55]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. og mjög svo virðulegi forseti. Ég er kominn í ræðu vegna þess að ef ég hefði farið í andsvar áðan hefði ég verið rekinn burtu. Hins vegar er nauðsyn að minnast aðeins á þetta mál sem er gagnmerkt og þarft. Það er nú einu sinni þannig, og það hefur komið fram hjá tveimur ágætum ræðumönnum á undan mér, að þegar svo er komið að Ísland er farið að skera sig úr í OECD-ríkjunum fyrir reglugerðarfargan er full þörf á því að gera áætlun eins og hér er gert ráð fyrir. Það var kannski eitt sem mér fannst að kæmi ekki fram í ræðum, þ.e. hvorugs þingmannsins hér áðan, og það er að umsjón með þeim reglugerðum, lögum og reglum sem við höfum á Íslandi krefst mikils mannafla. Það er þekkt að eftirlitsiðnaðurinn, sem við köllum svo, hér á Íslandi, þ.e. eftirlitsstofnanir, hafa bólgnað út mjög og væri full þörf á því að fá fram gagnmerkar tölur um hvernig sú þróun hefur verið. Síðan hefur komið fram, t.d. mjög vel hjá nýskipuðum ríkisendurskoðanda, sem var áður ríkisskattstjóri, að opinberir aðilar á Íslandi nýta netið ekki nægjanlega til að eiga samskipti, hvort sem er við einstaklinga eða fyrirtæki. Í því efni eru mikil tækifæri til að einfalda lífið, bæði þeim sem eru þiggjendur — eða þolendur — þeirrar þjónustu og/eða reglugerða sem um er að ræða sem og þeim sem vinna við þetta. Það er nú kannski ein upphrópun sem ég saknaði úr ræðu hv. þm. Óla Björns Kárasonar áðan, herkallið Báknið burt. Ég saknaði þess að heyra það ekki í annars ágætri ræðu hans, en auðvitað er það kannski það sem við erum að ræða hér einnig, að einfalda stofnanastrúktúr um leið og við einföldum regluverk sem um almenning og atvinnulíf gilda. Ég er þannig mjög stoltur af því að vera meðflutningsmaður að þessari tillögu og vona að hún fái gaumgæfilega athugun, væntanlega í efnahags- og viðskiptanefnd. Ég vænti þess að hv. formaður þeirrar nefndar taki þetta mál mjög föstum tökum. Það hefur einmitt komið fram núna á fyrstu dögum þessa þings, m.a. á samráðsfundum með forsætisráðherra, að fyrir liggja nú þegar um 300 þingmál frá þingmönnum. Það er hins vegar ekki til nein statistík um hversu mörg mál, t.d. undanfarin þing, frá þingmönnum, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, hafa ratað alla leið í gegnum þingið. Ég held að það væri líka þarft fyrir okkur að vita það. Þess vegna legg ég ríka áherslu á það að þetta mál verði tekið mjög föstum tökum því það á sannarlega skilið að fara alla leið í gegnum þingið en sofna ekki í nefnd eða daga uppi einhvers staðar á leiðinni.

Það er alveg ljóst að við stöndum frammi fyrir því að það er t.d. mjög flókið að stofna fyrirtæki. Í sumum greinum þurfa menn kannski að verða sér út um tug eða tugi mismunandi leyfa og leyfa áður en þeir geta farið af stað með fyrirtæki. Auðvitað er þetta hamlandi og rándýrt. Eins og fram hefur komið undanfarandi í ræðum þingmanna skerðir þetta samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja. (Gripið fram í.)Það gerir það. Þannig að þetta þurfum við að gaumgæfa nú því að við erum náttúrlega í vaxandi samkeppni. Ísland sjálft stendur í vaxandi samkeppni við löndin í kringum okkur, hvað varðar mannafla og störf sem gefa vel af sér. Við þurfum náttúrlega að kappkosta að við séum ekki sjálf að búa til girðingar eða hindranir fyrir atvinnulíf og einstaklinga sem séu það hamlandi og það miklu meira íþyngjandi en í nágrannalöndunum að við séum við að bregða fæti fyrir einstaklinga og fyrirtæki sem vilja hasla sér völl, hefja hér starfsemi og starfa áfram.

Þessi tillaga er náttúrlega mjög tímabær. Eins og fram kom í ræðu framsögumanns voru uppi fyrir 20 árum hugmyndir í þessa veru sem ekki hafa orðið að neinu enn þá. Þó að ég fagni því sem kom fram í ræðu hv. þm. Óla Björns Kárasonar áðan, um að ráðherrar séu í með í undirbúningi lagabálka sem eigi að einfalda regluverk, held ég engu að síður að full þörf sé á því að menn geri sér grein fyrir því hvernig ástandið er akkúrat núna, hvernig við eigum að bregðast við, hvenær og með hvaða hætti. Það er akkúrat það sem þessi þingsályktunartillaga gengur út á.

Að því sögðu vil ég ítreka að ég æski þess og vona að tillagan fái vandaða meðferð í nefnd og komi aftur inn í þingsal til síðari umræðu og afgreiðslu og verði þannig skref í þá átt að íslenskt atvinnulíf verði þróttmeira og enn farsælla en nú er.