150. löggjafarþing — 8. fundur,  23. sept. 2019.

starfsemi smálánafyrirtækja.

14. mál
[19:17]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að leggja þetta frumvarp fram, ég styð það heils hugar og vil taka undir með hv. þm. Ingu Sæland að allur Flokkur fólksins eins og hann leggur sig [Hlátur í þingsal.] styður þetta mál.

Fyrir innan við 30 árum var ég að vinna í versluninni Brynju á Laugavegi þegar gerð var held ég örugglega lögregluaðgerð við Kjörgarð, þá var verið að bjóða okurvexti sem voru svo ólöglegir og hneykslanlegir að það þurfti lögregluaðgerð til að loka þeirri starfsemi. Hvað var verið að bjóða þar? Ég held að það hafi verið 50% vextir. Hér segir að það megi vera allt að 50% vextir plús stýrivextir. Ég myndi segja að það væru okurvextir. Bara það eitt ætti að vera nóg til að hringja öllum viðvörunarbjöllum og stoppa svona rugl því að ég segi fyrir mitt leyti: Það þarf enginn á 54% vöxtum að halda.

Annað í þessu sem ég hef lesið um og gerir mig orðlausan er að það er hægt að taka 10.000 kr. lán í 30 daga og þá er maður að borga 5.314% vexti. Ef maður tekur lán í 15 daga er maður að borga 35.000% vexti. Setjum þetta í samhengi, hvernig hugmyndaflugið er. Það sem gerir mig algjörlega orðlausan er að það skuli vera hægt að innheimta lánin án þess að nokkur stoppi þetta, það sé ekki hreinlega heraðgerð, ekki lögregluaðgerð heldur bara heraðgerð, til að stöðva þetta. Ég get ekki skilið hvernig í ósköpunum þetta getur viðgengist og verið löglegt. Það á að vera útilokað. Svo er líka hitt, að það skuli vera hægt með einu pennastriki að æða inn á bankareikninga og kreditkort viðkomandi og taka þetta út. Þetta er eins og að fara með lúkurnar ofan í peningaveski viðkomandi og ná í peninga án þess að spyrja eins eða neins. Það er stórfurðulegt. Ég ráðlegg þeim sem eru að berjast við smálánafyrirtækin að fara inn á heimasíðu Neytendasamtakanna, þar eru leiðbeiningar um það hvað fólk getur gert.

Það er enn furðulegra í öllu þessu, því að maður telur þetta vera ólöglegt frá A til Ö, að hægt er að setja fólk á vanskilaskrá í þokkabót. Maður verður eiginlega kjaftstopp. Það er langt fyrir utan minn skilning að ekki skuli fyrir löngu vera búið að ganga þannig frá hlutunum að þetta frumvarp hefði ekki þurft að koma fram, það væri búið að ganga frá því að svona hlutir væru ekki í gangi. Ég vona heitt og innilega að frumvarpið verði samþykkt og það dugi til að stoppa þetta. Þá getum við verið laus við þann óskapnað sem þessi smálánafyrirtæki eru.