150. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2019.

búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum.

41. mál
[18:00]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður verður að fyrirgefa mér að ég lesi tillögugreinina eins og hún hljóðar, en þar stendur:

„Læknar geti ákveðið að einstaklingur sem bersýnilega þarf að fá vistun í hjúkrunarrými þurfi ekki að undirgangast færni- og heilsumat til þess að fá dvöl á viðeigandi stofnun.“

Hvað gerist þá ef það eru kannski tveir sem eru bersýnilega á einhverjum stað? Hver á þá að meta hvor er í meiri þörf ef ekki er búið að gera færni- og heilsumat, ef ekki er búið að gera eitthvert formlegt mat, ef það er ekki gert? Hvernig í ósköpunum eiga stjórnvöld að úthluta gæðum ef það á að einhverju leyti að taka frá þeim tækin sem þau þurfa að nota til þess að úthluta þeim gæðum á réttlátan hátt? Það verður að vera einhvers konar fyrirkomulag sem tryggir að farið sé málefnalega eftir því hver þörfin er á hverjum tíma og að það geti ekki bara einhver einn einstaklingur ákveðið að þessi þurfi ekki að fara eftir venjulegu leiðinni en síðan þurfi allir hinir að gera það. Það gengur ekki vegna þess að þá erum við komin út í ómálefnalega afgreiðslu á málum.

Það er rétt að það komi fram að nú í október verða opnuð 38 rými til viðbótar við þau 30 sem voru opnuð fyrr á árinu. Í mars á næsta ári verða opnuð 99 ný rými. Þetta er á höfuðborgarsvæðinu. Auðvitað breytir þetta ekki öllu en þetta mun hafa veruleg áhrif í þá átt að stytta biðlistana sem þegar eru farnir að styttast eins og kom raunar fram í fréttum, ef ég man rétt, í dag eða gær.