150. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2019.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

104. mál
[16:48]
Horfa

Flm. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi sem lagt er fram af Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins. Frumvarpið lýtur að breytingu á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar. Hún er ansi einföld og gengur út á það að við 2. mgr. 2. gr. laganna bætist orðin „auk Grænlands og Færeyja“ og að á eftir orðunum „Evrópska efnahagssvæðið“ í 5. málslið 2. mgr. 5. gr. laganna komi „auk Grænlands og Færeyja“.

Okkar ágætu lög um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar sem flestum ætti að vera kunnugt um hafa valdið því að kvikmyndagerðarfólk hefur getað óskað eftir endurgreiðslu sem jafngildir 25% af framleiðslukostnaði sem fellur til vegna kvikmyndar eða sjónvarpsefnis hér á landi. Jafnframt hefur verið opið á það að hluti af kostnaðinum mætti falla til utan Íslands, þ.e. innan Evrópska efnahagssvæðisins. Ágætir vinir okkar í Færeyjum og Grænlandi eru ekki innan EES, þó að við ættum kannski bara að bjóða þau velkomin í það samstarf, og það þýðir að þegar íslenskir kvikmyndagerðarmenn hafa farið til þessara nágrannalanda okkar hafa þeir ekki getað notað þann kostnað upp í endurgreiðslurnar.

Mig langar að þakka sérstaklega Hrafni Jökulssyni fyrir að hafa vakið athygli okkar þingmanna á þessu máli. Hann er mikill vinur Grænlands og til hans leituðu aðilar sem hafa verið þar við kvikmyndatökur og vöktu athygli okkar á því að þessu máli væri kannski hægt að breyta.

Virðulegur forseti. Ég hef ekki gert það að vana mínum að lesa greinargerð með frumvörpum en þessi er það stutt að ég ætla að leyfa mér að stikla á stóru í henni.

Málið var áður flutt á 149. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Eins og ég sagði áðan er það flutt af þingmönnum Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins og þar situr með okkur hv. þm. Þórunn Egilsdóttir, sem jafnframt er varaformaður ráðsins, en í ljósi fjarveru hennar við undirbúning þessa máls stendur varamaður hennar í ráðinu, hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir, að flutningnum. Það er hægt að endurgreiða sem jafngildir 25% af framleiðslukostnaði sem fellur til vegna kvikmyndar eða sjónvarpsefnis hér á landi. Jafnt innlendir sem erlendir aðilar geta sótt um þessa endurgreiðslu. Hafi meira en 80% af heildarframleiðslukostnaði verkefnisins fallið til hér á landi eru jafnframt endurgreidd 25% af þeim framleiðslukostnaði sem fellur til á Evrópska efnahagssvæðinu og þar viljum við bæta við Færeyjum og Grænlandi. Eins og lögin bera með sér er þetta tímabundið í gildi, í titli laganna er talað um tímabundnar endurgreiðslur, og þau voru sett á sínum tíma til að hvetja og virkja þessa atvinnugrein. Mjög mörg lönd eru með sambærilegar endurgreiðslur og hvatningu með því og þetta snýst um samkeppnishæfni landsins hvað þetta varðar. Gildistíminn hefur tvívegis verið framlengdur. Lögin gilda nú út árið 2021 og ég ætla að vona að okkur lánist að framlengja þau enn frekar þegar þar að kemur.

Endurgreiðslan sem kveðið er á um í lögunum er ein helsta forsenda þess að erlendir aðilar ráðist í kvikmyndaverkefni hér á landi enda lækkar framleiðslukostnaður um það sem endurgreiðslunni nemur. Kvikmyndaverkefni sem framleidd eru á Íslandi hljóta 25% endurgreiðslu falli þau undir lögin að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Einnig hjálpar þetta fyrirkomulag íslenskum fyrirtækjum, svo sem til að sækjast eftir samvinnuverkefnum með erlendum aðilum. Allt að fjórðungur alls framleiðslukostnaðar sem fellur til innan Evrópska efnahagssvæðisins er endurgreiddur, að því gefnu að 80% af heildarframleiðslukostnaðinum falli til á Íslandi.

Okkur í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins er auðvitað mjög umhugað um vini okkar á Grænlandi og í Færeyjum og ég held að hægt sé að færa rök fyrir því að þörf sé á stuðningi við atvinnuuppbyggingu þar og án efa myndi þetta gagnast þeim en ekki síður íslenskum kvikmyndagerðarmönnum. Samkvæmt okkar heimildum eru íslenskir kvikmyndagerðarmenn ragir við að fara til Færeyja og Grænlands vegna þessa en vegna nálægðarinnar eru þarna mjög mikil tækifæri og ég ætla sérstaklega að nefna Grænland í þeim efnum. Beiðnin sem kom til okkar laut sérstaklega að því að opna á að hægt væri að taka upp hluta af kvikmyndum eða sjónvarpsefni á Grænlandi.

Ísland er auðvitað norðurslóðaríki eins og Grænland, og Færeyjar ef því er að skipta. Ég held að töluverð tækifæri séu fólgin í því að markaðssetja okkur enn frekar sem norðurslóðaríki. Að því er við best vitum er kvikmyndagerð í þessum tveimur löndum ekki komin jafn langt og íslensk kvikmyndagerð, enda hefur verið gríðarlega mikil framþróun í þessum geira á síðustu árum og kannski áratug og hafa þessar aðgerðir örugglega verið mikill hvati til þess.

Í lok árs 2015 lagði þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra fram skýrslu um hagræn áhrif kvikmyndagerðar á Íslandi með sérstakri áherslu á svæðisbundin áhrif. Þetta var samkvæmt beiðni frá þinginu. Í skýrslunni kemur fram að stuðningur hins opinbera við kvikmyndagerð hafi aðallega verið með tvennum hætti, annars vegar með styrkjum Kvikmyndasjóðs og hins vegar með endurgreiðslu hluta kostnaðar við gerð kvikmynda á Íslandi. Einnig kemur þar fram að endurgreiðslur séu styrkir til greinarinnar sem bæti hlutfallslega stöðu hennar umfram greinar sem ekki njóta stuðnings. Ef einungis er litið til beinna áhrifa eru skatttekjur af kvikmyndaframleiðslu alla jafna hærri en sem nemur endurgreiðslum vegna kostnaðar. Í skýrslunni kemur jafnframt fram að sé einnig tekið tillit til styrkja úr Kvikmyndasjóði séu beinar skatttekjur af kvikmyndaframleiðslu lægri en styrkir hins opinbera. Seinna í skýrslunni eru taldir upp þrír meginflokkar markmiða endurgreiðslukerfisins. Í fyrsta lagi er markmiðið að stuðla að eflingu innlendrar menningar og kynningar á sögu lands og náttúru, í öðru lagi að laða að erlenda aðila til framleiðslu kvikmynda og sjónvarpsefnis hér á landi og í þriðja lagi að efla þekkingu og reynslu innlends kvikmyndagerðarfólks með þátttöku í fleiri, stærri og fjölbreyttari verkefnum. Í skýrslunni kemur jafnframt fram að þessum markmiðum hafi verið náð og að ýmislegt bendi til að styrkjakerfi við kvikmyndagerð á Íslandi sé einfalt og gagnsætt í samanburði við fyrirkomulag í ýmsum öðrum löndum.

Með þessu frumvarpi er lagt til að sömu endurgreiðslureglur gildi um framleiðslukostnað sem fellur til á Grænlandi og í Færeyjum annars vegar og í aðildarríkjum EES hins vegar.

Þessar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar hafa stundum verið gagnrýndar og því langaði mig að nefna að ég var á mjög fjölmennum fundi í Hörpu í dag þar sem var fjallað um stöðu ferðaþjónustunnar. Greiningardeild Landsbankans stóð fyrir þessum fundi og eins og við vitum öll hefur ferðaþjónustan orðið fyrir töluverðu áfalli með falli WOW. Þrátt fyrir það hefur ferðaþjónustunni reitt sæmilega af, ferðamenn dvelja lengur á Íslandi og eyða meiri fjármunum, bæði í sinni heimamynt en líka íslenskum krónum þannig að það er ekki bara gengi krónunnar sem spilar inn í. Ferðaþjónustunni virðist takast ágætlega til þó að ekki sé ástæða til að tala niður það áfall sem fall WOW var fyrir ferðaþjónustuna. Þarna kom þó fram að kjarasamningarnir hefðu ekki síður mikið vægi fyrir afkomu í greininni. Hagfræðingur sem fór þarna yfir tölur nefndi sérstaklega að þegar þeir horfa inn í framtíðina líta þeir til þess að töluvert hefur verið um að erlendir aðilar séu að taka upp kvikmyndir hér á landi og þá vænta menn aukningar ferðamanna vegna þess. Ég held að við sjáum alls staðar hvað hagrænu áhrifin eru mikil. Það er óbein auglýsing eða bara bein auglýsing þegar kvikmyndir eru teknar upp hér á landi. Það hefur áhrif, ekki bara á þennan geira heldur líka ferðaþjónustuna. Ég held að um sé að ræða betrumbætur á lögunum ef við opnum fyrir það að kvikmyndagerðarfólk okkar geti farið yfir til Grænlands og Færeyja ef það sér ákveðin tækifæri þar. Þetta gæti líka aukið enn frekar samstarf okkar við þessa góðu nágranna okkar í ljósi menningar og þess sem við eigum sameiginlegt. Ég held að ég geti fullyrt að við í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins sjáum ýmis tækifæri í því.

Að þessu sögðu óska ég eftir því að að lokinni þessari umræðu fari málið til meðferðar í hv. atvinnuveganefnd sem ég vona innilega að geti afgreitt málið tiltölulega hratt og örugglega. Það verður gaman fyrir okkur í Íslandsdeildinni að fara til Grænlands í lok október þar sem aðalfundurinn er fyrirhugaður og geta sagt frá því að við séum búin að mæla fyrir þessu máli. Vonandi verða jafnframt einhverjar umsagnir komnar um málið.