150. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2019.

vindorka og vindorkuver.

[16:17]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum enn að ræða um vindorku og ég vil benda á að Flokkur fólksins hefur lagt fram lagafrumvarp um umhverfisáhrif. Það er þskj. 90, 90. mál, um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Þar leggjum við til að öll vatnsorka þar sem uppsett rafafl er 200 kílóvött eða meira og vindorka sem er með um 2 megavött eða meira fari í umhverfismat og framkvæmdamat. Við verðum að passa okkur líka af því að þróunin er svo hröð að við getum ekki í sjálfu sér byggt upp rosalega vindmyllugarða á Íslandi, vegna þess að ef við eigum að velja rétta staði er það við vatn eða sjó. Þar er yfirleitt mesti vindurinn og kannski minnstu áhrifin en ég verð að segja eins og er að þegar maður sér stóra vindmyllugarða erlendis eru þeir forljótir. Þeir eru lýti á umhverfinu og mér hugnast t.d. ekki sú tilhugsun að setja upp svakavindmyllugarð á sunnanverðum Vestfjörðum, akkúrat þar sem arnarhreiður eru hvað flest. Ég segi fyrir mitt leyti að við verðum að sjá til þess að þegar svona mat fer fram sé það gert á þeim stað þar sem það veldur minnstum skaða á náttúru og fuglalífi.