150. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2019.

ávana- og fíkniefni.

23. mál
[18:45]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Já, það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að hættuleg efni verða mögulega enn þá á markaðnum þó að við afglæpavæðum vörslu neysluskammta. Munurinn er kannski sá að þá þora eða geta vímuefnaneytendur leitað aðstoðar ef þeir þurfa á því að halda. Eins og staðan er núna setjum við notanda vímuefna í þá stöðu að ef eitthvað alvarlegt kemur upp á, segjum kynferðisbrot eða hvað sem kann að koma upp, ef brotið er á einstaklingi sem neytir vímuefna, þá er hann tregur til og hræddur við að sækja sér aðstoð til lögreglunnar af því að hann er sjálfur glæpamaður við það að nota vímuefni. Þetta er ofboðslega erfið staða að setja notendur vímuefna í. Hluti af því að afglæpavæða þetta er að fólk geti og vilji koma frekar fram og leita sér aðstoðar þegar það þarf á því að halda. Mér finnst það vera rökréttari staða að setja ungmenni í, sem eru kannski bara að fikta, hvað þá þá sem eiga við raunverulegan vanda að stríða og þurfa að sækja sér aðstoð og ættu að fá aðstoð hjá heilbrigðiskerfinu en eru þess í stað að fela sig.

Hv. þingmaður talaði í ræðu sinni um glæpagengin sem urðu til á tímum áfengisbannsins og hvernig það fór allt í undirheimana og ástandið á þeim tíma var náttúrlega frekar ljótt. Því langar mig til að spyrja hvort hv. þingmaður sé mögulega hlynntur einhvers konar regluvæðingu á vímuefnum, hvort við eigum ekki bara að regluvæða til að losa okkur við undirheimana og þennan ljóta svartamarkað og ofbeldi sem fer fram þar.