150. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2019.

barnaverndarlög og almenn hegningarlög.

87. mál
[15:56]
Horfa

Flm. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F):

Ég flyt frumvarp til laga um breytingu á barnaverndarlögum og almennum hegningarlögum. Fyrsti flutningsmaður er hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir og meðflutningsmenn eru hv. þm. Helga Vala Helgadóttir og sú sem hér stendur.

Í I. kafla, um breytingu á barnaverndarlögum, segir að ríkissaksóknari skuli láta Barnaverndarstofu í té afrit dóma, þegar sakfellt sé fyrir brot á XXII. kafla almennra hegningarlaga sem beinist gegn einstaklingi sem ekki hefur náð 18 ára aldri, um leið og endanlegur dómur hefur fallið.

Eins og segir í greinargerð var frumvarpið áður flutt á 149. löggjafarþingi og 148. löggjafarþingi og er nú endurflutt efnislega óbreytt.

Í umræðunni um kynferðisafbrot gegn börnum hafa oft komið upp vangaveltur um hvernig best skuli hagað eftirliti og meðferð dæmdra kynferðisbrotamanna með barnagirnd á háu stigi. Mikilvægt er að leggja mat á hvort líklegt sé að hinn brotlegi brjóti af sér á ný og í því samhengi er alvarleiki brots ekki góður mælikvarði. Að mati fagaðila er áreiðanlegasta tækið í þessum efnum svokallað áhættumat, sérstakt sálfræðilegt mat sem framkvæmt er til þess að leggja mat á hversu líklegt er að viðkomandi brjóti af sér aftur. Það er mat flutningsmanna að mikilvægt sé að öllum sem dæmdir eru fyrir kynferðislegt ofbeldi gegn barni verði gert skylt að undirgangast slíkt mat. Ef menn teljast líklegir til þess að brjóta af sér á ný er nauðsynlegt að fylgjast sérstaklega með þeim eftir að afplánun lýkur. Barnaverndarstofa hefur frá árinu 2009 látið framkvæma áhættumat af þessu tagi á þeim sem eru á barnsaldri og gerst hafa sekir um óviðeigandi kynferðislega hegðun.

Þó að rannsóknir hafi sýnt að ítrekunartíðni kynferðisbrota sé tæplega 20% hjá þeim sem ekki fá meðferð eru þeir sem brjóta af sér kynferðislega samt mislíklegir til að brjóta af sér aftur. Áhættumat er því leið til að meta hættuna sem stafar af tilteknum einstaklingi í tengslum við afbrot af ýmsu tagi. Markmiðið með áhættumati er því að spá fyrir um hvort afbrotamaður brjóti aftur af sér og, ef ástæða þykir til, að bregðast við niðurstöðunni með viðeigandi hætti til að reyna að koma í veg fyrir að það gerist. Áhættumat, eins og það er best framkvæmt, gerir því meira en að spá fyrir um hegðun, það hjálpar einnig meðferðar- og eftirlitsaðilum að taka saman þær upplýsingar sem nota þarf til að búa til meðferðar- og stuðningsáætlun. Í áhættumati koma einnig fram nauðsynlegar upplýsingar fyrir refsivörslukerfið þegar ákvörðun um skilyrði reynslulausnar er tekin og hvaða þarfir þarf að uppfylla hjá afbrotamönnum til að vernda almenning og draga þar með úr líkum á ítrekun afbrota. Þá hafa rannsóknir sýnt að ítrekunartíðni þeirra sem hafa hlotið dóm fyrir kynferðisbrot er mjög mismunandi eftir áhættuflokkum. Til að mynda er ítrekunartíðni 10 árum eftir afplánun hjá einstaklingi sem er í lítilli áhættu 9% samanborið við 45% hjá einstaklingi sem metinn var í mikilli áhættu. Mikið er því unnið með því að veita einstaklingum í mikilli áhættu bæði stuðning og eftirlit.

Víða erlendis hefur verið tekið upp eftirlits- og stuðningskerfi sem beinist að dæmdum kynferðisbrotamönnum og ætlað er að varna ítrekun brota og stuðla þannig að aukinni vernd barna. Nefna má t.d. Bretland en þar hefur verið gripið til sérstakra ráðstafana sem taka yfir þá þætti sem nefndir hafa verið hér að framan. Um er að ræða samstarf opinberra aðila þar sem haldin er þrískipt skrá yfir einstaklinga sem 1) hafa hlotið dóm, 2) eru á reynslulausn og 3) eru metnir í mestri hættu á að brjóta af sér á ný. Fylgst er sérstaklega með þeim sem eru metnir í mestri hættu. Er verkefnið nefnt á ensku Multi-Agency Public Protection Arrangement. Vísir að slíku fyrirkomulagi er í 36. gr. barnaverndarlaga þar sem kveðið er á um aðrar ráðstafanir barnaverndarnefnda. Í þessu frumvarpi verður leitast við að styrkja þær heimildir sem eru í barnaverndarlögum til að tryggja öryggi barna. Er framkvæmd eftirlitsins, sem lögð er til í frumvarpi þessu, svipuð framkvæmdinni í Bretlandi þó að hún gangi ekki jafn langt, t.d. er ekki gert ráð fyrir því að haldin verði sérstök skrá yfir alla kynferðisafbrotamenn sem hljóta dóm og ekki er lagt til að hægt sé að leita til dómara eftir að dómur hefur fallið í þeim tilgangi að fá sérstakan dóm um öryggisráðstafanir. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur í tveimur málum talið að fyrirkomulag mála þar brjóti ekki í bága við mannréttindasáttmála Evrópu.

Í frumvarpi þessu er lagt til að auk orðalagsbreytinga á 1. mgr. 36. gr. barnaverndarlaga verði nýju ákvæði, 36. gr. a, bætt við VII. kafla laganna þar sem kveðið er á um aðrar ráðstafanir barnaverndarnefnda og að jafnframt verði nýju ákvæði bætt við VII. kafla almennra hegningarlaga, 64. gr., þar sem kveðið er á um öryggisráðstafanir, sviptingu borgararéttinda og upptöku eigna. Með þessum breytingum telja flutningsmenn að Barnaverndarstofu verði gert kleift að rækja skyldur sínar með því að geta gert barnaverndarnefndum viðvart þegar einstaklingar sem veruleg hætta kann að stafa af flytja í umdæmi þeirra, viðhafa sérstakar öryggisráðstafanir þegar dómari telur þá hættulega og tryggja þannig betur öryggi barna. Slíkar öryggisráðstafanir koma til að mynda í veg fyrir að dæmdir kynferðisbrotamenn, sem taldir eru hættulegir börnum, geti breytt nafni sínu í þjóðskrá án þess að vitneskja sé hjá hinu opinbera um nafnbreytinguna.

Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. barnaverndarlaga getur Barnaverndarstofa tilkynnt viðkomandi barnaverndarnefnd ef maður sem veruleg hætta er talin stafa af flytur í umdæmi hennar. Barnaverndarstofa hefur hins vegar engin úrræði samkvæmt barnaverndarlögum til þess að fá vitneskju um hvar þeir einstaklingar sem ætla má að veruleg hætta geti stafað af dveljast og hefur því í raun ekki möguleika til þess að upplýsa barnaverndarnefndir um að slíkir einstaklingar hafi flutt í umdæmi þeirra. Ekki eru heldur ákvæði í lögum sem heimila sérstakar öryggisráðstafanir gagnvart einstaklingum sem taldir eru hættulegir og líklegir til að brjóta aftur af sér.

Lagt er til að Barnaverndarstofa fái upplýsingar um það frá ríkissaksóknara án tafar þegar fallið hefur endanlegur dómur þar sem einstaklingur hefur gerst sekur um kynferðisbrot gegn einstaklingi undir 18 ára aldri. Einnig er gert ráð fyrir því að áður en dómur fellur liggi fyrir áhættumat á einstaklingnum, sem heimilt er að gera samkvæmt lögum um meðferð sakamála, sem m.a. fjallar um hversu líklegt er að viðkomandi brjóti af sér að nýju. Ef niðurstaða þess áhættumats bendir til þess að veruleg hætta kunni að stafa af viðkomandi einstaklingi getur dómari ákveðið að yfirvöldum sé heimilt að viðhafa sérstakar öryggisráðstafanir gagnvart viðkomandi eftir að afplánun lýkur og að Barnaverndarstofa stýri þeirri framkvæmd. Gerir frumvarpið ráð fyrir samstarfi Fangelsismálastofnunar, Barnaverndarstofu, lögreglu, heilbrigðisyfirvalda og félags- og barnaverndaryfirvalda þar sem viðkomandi býr í þeim tilvikum þegar dómari telur rétt að slíkar öryggisráðstafanir verði viðhafðar. Er þannig gert ráð fyrir að Barnaverndarstofu verði gert viðvart þegar afplánun lýkur og hún fái jafnframt upplýsingar um dvalarstað einstaklings auk þess sem tilkynna þurfi stofunni ef breytingar verða á dvalarstað. Ef farin er þessi leið hefur Barnaverndarstofa möguleika á því að láta barnaverndarnefnd vita ef maður sem ætla má að veruleg hætta stafi af flytur í umdæmi hennar, líkt og ákvæði 36. gr. barnaverndarlaga gerir ráð fyrir.

Frumvarpið gerir jafnframt ráð fyrir að Barnaverndarstofa, í samráði við lögreglu og félags- og barnaverndaryfirvöld á hverjum stað, geri þær öryggisráðstafanir sem nauðsynlegar eru hverju sinni.

Nú hef ég lesið hér greinargerð með frumvarpinu og ætla ég ekki að fara út í ítarlegar útskýringar á hverri grein fyrir sig. Flutningsmenn óska eftir að þetta frumvarp fari til velferðarnefndar.