150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

ástandið á Landspítalanum.

[15:05]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Sú stefna sem er í gildi núna um heilbrigðisþjónustu á Íslandi er heilbrigðisstefna til ársins 2030 sem var samþykkt með 45 atkvæðum á Alþingi. Hún snýr m.a. að því meginatriði, sem er gríðarlega mikilvægt í heilbrigðisþjónustunni og er ekki vanþörf á að skýra betur, hver gerir hvað í heilbrigðisþjónustunni. Hún snýst um að sú þjónusta sem veitt er á Landspítala sé sú sem þar á heima. Segja má að hún sé tvíþætt, annars vegar sú þjónusta sem kallast þriðja stigs þjónusta í heilbrigðisstefnu, er þjónusta háskólasjúkrahússins og endastöðin þegar flóknustu verkefnin rekur á okkar fjörur og svo er spítalinn héraðssjúkrahúsið á Suðvesturlandi.

Við höfum fjallað um það á Alþingi en líka hefur verið fjallað um það á vettvangi embættis landlæknis að við erum með tilvik þar sem verið er að veita þjónustu á Landspítala sem ætti sannarlega að veita annars staðar. Þá dettur mér fyrst og fremst tvennt í hug, annars vegar það sem lýtur að þeirri staðreynd að löngum hefur legið á Landspítala nokkur fjöldi aldraðra sem hafa verið með það sem kallað er færni- og heilsumat og ættu að vera á hjúkrunarheimilum. Þetta eru núna að jafnaði 40–50 manns þegar við erum búin að opna fleiri hjúkrunarrými. Við þurfum að gera betur þar. Hin tilvikin eru þau þegar fólk leitar til bráðamóttöku Landspítala þegar heilsugæslan ætti að sinna viðfangsefnunum. Þetta stendur allt saman til bóta með skýrari stefnumótun sem við höfum á okkar borði og með innleiðingu heilbrigðisstefnu ætti að vera enn skýrara að verkefni Landspítala verði unnin þar og að verkefni sem annars staðar eiga heima verði unnin annars staðar.