150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

ástandið á Landspítalanum.

[15:09]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég veit að hv. þingmanni finnst það dálítið leiðinlegt en það gerðist nú hér í júní að 45 þingmenn greiddu atkvæði með nýrri heilbrigðisstefnu. Það var ekki akkúrat í þeim anda sem hv. þingmaður vill vinna, þ.e. að stuðla svona frekar að sundrung en samstöðu. 45 þingmenn þýðir þingmenn stjórnarflokkanna og þingmenn tveggja annarra stjórnmálaflokka á Alþingi, (SDG: Svaraðu spurningunni.) sem þýðir að það er víðtækur stuðningur við nýja heilbrigðisstefnu á Alþingi.

Þar sem hv. þingmaður spyr sérstaklega hvernig eigi að tryggja að þessir þættir séu unnir þar sem vera ber er það svo að við erum að fjölga hjúkrunarrýmum í stórkostlega mikilvægri uppbyggingu sem stendur yfir og að samstarf milli heilsugæslunnar og bráðamóttöku Landspítalans hefur leitt það af sér að komum á bráðamóttöku Landspítalans hefur fækkað um 10% og (Gripið fram í.) það fólk fer núna til heilsugæslunnar.