150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

fjárfestingaleið Seðlabankans.

[15:36]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hér er sérstaklega spurt um peningaþvætti. Fjármálaeftirlitið hafði það hlutverk að hafa eftirlit með því hvort umræddar fjárfestingar stæðust lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Það var Fjármálaeftirlitsins að hafa eftirlit með því að fjármálafyrirtækin sem voru milliliðir eða mótaðilar í þessum samskiptum við Seðlabankann færu með rétt mál. Mér finnst mikilvægt að halda því til haga að það var ekki hlutverk Seðlabankans á þessum tíma heldur Fjármálaeftirlitsins. Í ljósi þess sem hv. þingmaður segir hér myndi ég eigi að síður telja eðlilegt að Alþingi og viðeigandi nefndir á vegum Alþingis færu yfir skýrslu Seðlabankans og könnuðu hvort Alþingi og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eða efnahags- og viðskiptanefnd teldu að þar væri spurningum ósvarað. Það teldi ég eðlilegt. Raunar hefði ég talið að um leið og þessi skýrsla kom hefði Alþingi átt að taka hana til skoðunar og umræðu. Ég tel að það sé eðlilegt næsta skref í þessu máli.