150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

háskólastarf á landsbyggðinni.

[15:38]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. menntamálaráðherra um aðgerðir til að styrkja starf háskóla á landsbyggðinni og tryggja betur fjármögnun þeirra. Óeðlilega lítið af starfsemi íslenskra háskóla hefur fengið að byggjast upp á landsbyggðinni og hefur skortur á fjármögnun þeirra ýtt undir þá öfugþróun. Í þessu sambandi er rétt að inna sérstaklega hæstv. menntamálaráðherra eftir viðhorfi hennar og áformum vegna háskólanna á landsbyggðinni, háskólanna á Akureyri og Bifröst og landbúnaðarháskólanna á Hvanneyri og Hólum, þá ekki síst vegna áframhaldandi sjálfstæðis þeirra. Enn fremur spyr ég um uppbyggingu rannsóknastarfs á þeirra vegum á landsbyggðinni. Vil ég sérstaklega inna hæstv. menntamálaráðherra eftir því hvort hún sé sammála þeim sem hér stendur um að spara megi umtalsverða fjármuni og um leið styrkja starf Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri með því að flytja þangað þá rannsóknastarfsemi hans sem nú fer fram á Keldnaholti.