150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

háskólastarf á landsbyggðinni.

[15:39]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og fyrir að beina sjónum að jafnræði til náms og uppbyggingu háskólastigsins á öllu landinu. Ég er auðvitað mjög stolt af því og ánægð að geta sagt að við séum að ná OECD-meðaltalinu árið 2020 um fjárframlög á hvern nemanda. Það er eitt af því sem ríkisstjórnin sagði að hún myndi gera í stjórnarsáttmálanum. Það er að ganga eftir. Undir ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur erum við virkilega að styðja við háskólastigið og efla það.

Varðandi þá spurningu sem sérstaklega kom fram í máli hv. þingmanns vil ég nefna það að við eigum mjög öflugar háskólastofnanir úti á landi, Háskólann á Hólum, Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri og Háskólann á Akureyri. Við erum að setja á laggirnar þekkingarsetur, við erum með samstarfsnet opinberra háskóla og svo er sérstaklega gerð grein fyrir stefnumörkun okkar í byggðaáætlun. Við höfum verið að styrkja sérstaklega rannsóknastarf í Háskólanum á Hólum og við viljum halda áfram að efla það eins og við mögulega getum. Á árinu fengu til að mynda vísindamenn fiskeldisbrautarinnar á Hólum stóran styrk frá Rannís, svonefndan öndvegisstyrk, sem er auðvitað mikil viðurkenning fyrir öflugt rannsóknastarf.

Mig langar í síðara svari mínu að koma inn á fleiri háskóla á landsbyggðinni og hver stefnumörkunin hafi verið þar. En mig langar líka að nefna að það sem ég tel að sé mikilvægast varðandi þróun menntunar á landinu er að það sé sjálfsagt að nemendur velji sér nám úti um allt land. Við eigum að setja inn ákveðna hvata til að það val sé mögulegt. Víðast hvar annars staðar, til að mynda á Norðurlöndunum og í Bandaríkjunum, er í raun og veru fáheyrt að viðkomandi aðili fari líka í nám í þeirri borg þar sem hann er alinn upp. En við þurfum líka svolítið að breyta hugsunarhættinum.