150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

íslenskt bankakerfi og sala á hlutum ríkisins í bönkunum.

[16:24]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þátttöku hæstv. ráðherra og hv. þingmanna í þessari umræðu þó að ég átti mig ekki frekar en fyrir umræðna á því hvert stjórnarflokkarnir vilja stefna í þessum málum. Hæstv. fjármálaráðherra vill vinna eftir hugmyndum hvítbókar um framtíð bankakerfisins. Hvítbókin hefur verið harkalega gagnrýnd fyrir að vera mótuð um of af hugmyndafræði og hagfræði sem beið skipbrot í bankahruninu 2008, nýja hugsun vanti í hvítbókina, hún sé skrifuð fyrir þá sem vildu hugsanlega kaupa hluta í bönkunum og nýtist illa stjórnvöldum sem vilja marka stefnu með bankakerfi sem þjónar almenningi með sem allra bestum hætti. Í hvítbókinni er hvatt til þess að bankaskatturinn verði aflagður til þess að gera bankana söluvænni. Þó að það geti verið eðlilegt að fjármálafyrirtækin sjálf vilji greiða minna til samfélagsins er lækkun skatta varla aðalatriði í stefnumótun stjórnvalda um framtíð fjármálakerfisins eins og stundum mætti ætla af umræðunni.

Flýtum okkur hægt. Það liggur ekkert á. Einstaklega gott tækifæri er nú til breytinga þegar tveir þriðju hlutar bankakerfisins eru í eigu ríkisins og allt annað umhverfi en fyrir sjö árum. Um leið og við höfum ætíð að leiðarljósi hag almennings við stefnumótun þarf að rýna í þær tækninýjungar sem nú ryðja sér til rúms og sjá fyrir hvert þær leiða okkur. Á slíkum óvissutímum er mikilvægt að ríkið haldi á stórum hlut í bankakerfinu og verji almenning fyrir því að bera kostnaðinn af áhættusækni í fjármálakerfinu.