150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla enn og aftur að ræða um útflutning á óunnum fiski. Sú staðreynd er uppi að það stefnir í 50.000–60.000 tonna útflutning á óunnum fiski sem var fyrir fimm árum helmingi minni, um 25.000 tonn. Þetta hefur leitt af sér að fiskur á uppboðsmörkuðum hér heima hefur hækkað upp úr öllu valdi og samkvæmt tölum í gær kostaði fiskur, þorskur sem er átta plús, 650 kr. á markaði. Eru fiskvinnslur sem reiða sig á fisk á uppboðsmarkaði margar hverjar í miklum vandræðum vegna þess að þær hafa ekki aðgang að fiski og svo er hann líka allt of dýr. Þar af leiðandi senda þær sitt fólk jafnvel heim. Margir eru orðnir ansi tæpir á því að halda þessu áfram. Mikið af þeim fiski sem fluttur er út er unnið erlendis þar sem aðgangur er að miklu ódýrara vinnuafli. Það er stórfurðulegt að við skulum nú vera stödd í þessum veruleika.

Hér er að störfum nefnd um að 5,3% af byggðakvóta verði tekin út, línuívilnun og margt fleira, og er það vel. Það er til að efla byggðir í landinu í gegnum fiskvinnslu og fiskveiðar. Á meðan lekur samt hitt stígvélið og virðist ekki vera nokkur vilji stjórnvalda til að þétta það. Er þetta viljaleysi stjórnvalda eða er það getuleysi? Hafa stjórnvöld ekki lengur verkfæri í verkfærakistu sinni til að bregðast við þeirri stöðu sem nú er komin upp? Mér finnst þetta það alvarlegt mál að mig setur hljóðan við þá þögn sem ríkir í búðum stjórnvalda hvað þetta varðar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)