150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Í síðustu viku fékk ég tækifæri til að taka þátt í vinnu vinnuhóps á vegum heilbrigðisráðuneytisins um siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu. Þetta er afar mikilvæg vinna og það er rétt að minna hv. þingmenn á það að seinast fór svona vinna fram árið 1998 og lauk með skýrslu sem þá birtist. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og sumt alveg horfið. Samfélagið hefur líka mikið breyst á þessum tíma. Við höfum breyst sem samfélag yfir í það að vera fjölmenningarsamfélag. Fjórða iðnbyltingin hefur hafið innreið sína og sú upplýsingastefna sem hefur verið, og þar með gert notendum kleift að taka meiri þátt í ákvörðunum í heilbrigðisþjónustu, hefur gjörbreytt því hvernig við hugsum um þessi mál og hvernig við eigum að hugsa um þessi mál, forvarnir, heilsueflingu, áherslu á göngudeildir o.s.frv. Allt þetta mætti telja. Það er nefnilega mjög mikilvægt að ræða þessi mál, m.a. vegna þess að fjármunir til allra verka í samfélaginu eru takmarkaðir og sameiginleg sýn okkar allra á forgangsröðun og siðferðileg gildi bætir límið í samfélaginu.

Næstu skref í þessu verða að halda heilbrigðisþing sem verður 15. nóvember nk. og ég hvet hv. þingmenn til að taka þátt í því. Á þessum tímapunkti er ástæða til að hrósa hæstv. heilbrigðisráðherra og ráðuneyti hennar fyrir það verklag sem viðhaft er í þessu máli og ég held að við getum öll hlakkað til þess að fá að takast á við þetta verkefni í þinginu næsta vor þegar þingsályktunartillaga um málið kemur fram.