150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

fríverslunarsamningar í Norður-Atlantshafi.

[14:27]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Þakka ber málshefjanda fyrir að taka þetta mál á dagskrá. Við Íslendingar eigum auðvitað alltaf að vera á vaktinni við að efla og treysta sambönd okkar við önnur ríki. Ég held að líka sé rétt að hafa í huga að þau ríki sem sérstaklega eru nefnd í fyrirspurninni, um kosti og galla þess að mynda fríverslunarsvæði, að við erum í býsna nánu sambandi við flest þau ríki, kannski síst Bandaríkin þegar kemur að fríverslun. Mín skoðun er sú að stundum sé skynsamlegt að sækja ekki vatnið yfir lækinn og að við treystum enn frekar samband okkar við Evrópuríkin af mörgum ástæðum. Varðandi möguleikana á því að gera fríverslunarsamninga við Bandaríkin held ég að það sé mjög nauðsynlegt að menn velti fyrir sér hverjar áherslur Bandaríkjamanna eru þegar þeir gera fríverslunarsamninga og hvort þær áherslur falli að áherslum okkar.

Á síðu bandaríska landbúnaðarráðuneytisins er rætt um að Bandaríkin hafi gert 20 fríverslunarsamninga við önnur ríki. Megináherslan þar er að opna tækifæri fyrir amerískar landbúnaðarafurðir, að geta selt til þessara landa, og eins og það heitir að eyða öllum hindrunum fyrir viðskipti, hvaða nafni sem þær nefnast. Og það er spurning (Forseti hringir.) hvort ríkisstjórnin væri einhuga um að sækjast eftir fríverslunarsamningi við Bandaríkin þar sem reikna má með að sú krafa verði ófrávíkjanleg.