150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 78/2019 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

187. mál
[14:57]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 78/2019 sem mælir fyrir um að tvær tilskipanir Evrópuþingsins og ráðsins og tvær reglugerðir Evrópuþingsins og ráðsins á sviði fjármálaþjónustu verði teknar upp í EES-samninginn. Tilskipun 2014/65/ESB, svokölluð MiFID II tilskipun, og reglugerð 600/2014/ESB, MiFIR, fela í sér breytingar á reglum um markaði fyrir fjármálagerninga. MiFID II tilskipunin felur í sér þó nokkrar breytingar frá því sem gilt hefur frá setningu MiFID. Hið nýja regluverk hefur víðtækara gildissvið, tekur mið af tækninýjungum og er m.a. ætlað að auka gagnsæi í viðskiptum með fjármálagerninga og skerpa á fjárfestavernd. MiFID II hefur í för með sér breytingar á núgildandi reglum um starfsleyfi, viðskiptahætti verðbréfafyrirtækja, skipulagskröfur verðbréfafyrirtækja og nýjar tegundir viðskiptavettvanga, svo eitthvað sé nefnt.

Reglugerð 2014/65/ESB, MiFIR, felur í sér víðtækari kröfur en í MiFID I um gagnsæi fyrir og eftir viðskipti og eru eftirlitsstjórnvöldum færðar valdheimildir til að hlutast til um markaðssetningu, dreifingu eða sölu tiltekinna fjármálaafurða og samsettra innstæðna að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Íhlutunarheimildir geta einnig náð til tiltekinnar fjármálastarfsemi eða framkvæmdar á fjármálamarkaði.

Tilskipun 2016/1034 frestar þeim tímafresti sem aðildarríki hafa til að tilkynna um að þau hafi innleitt fullnægjandi ákvæði um stjórnsýsluviðurlög vegna MiFID II um eitt ár. Jafnframt felur hún í sér smávægilegar breytingar á öðrum ákvæðum MiFID II.

Reglugerð nr. 2016/1033 frestar gildistöku MiFIR um eitt ár innan ESB, þ.e. til 3. janúar 2018. Gildistöku tengdra ákvæða í tilteknum öðrum gerðum á sviði fjármálaþjónustu er jafnframt frestað. Jafnframt felur hún í sér smávægilegar breytingar á öðrum ákvæðum MiFIR.

Stefnt er að því að fyrrnefndar ESB-gerðir verði innleiddar með nýjum heildarlögum um markaði fyrir fjármálagerninga. Stefnt er að framlagningu frumvarps þess efnis á yfirstandandi haustþingi.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.